„Hér munu fæðast stjörnur“

Guðmundur Týr Þórarinsson er einn af aðstandendum nýju sjónvarpsstöðvarinnar isTV …
Guðmundur Týr Þórarinsson er einn af aðstandendum nýju sjónvarpsstöðvarinnar isTV sem fer í loftið þann 17. júlí í næstu viku. Valdís Þórðardóttir

Í næstu viku mun ný íslensk sjónvarpsstöð, isTV, hefja göngu sína, en þar verður áherslan sett á grasrótarstarf í íslenskri þáttagerð og stuttmyndum. Stefnt er á að framleiddir verði 20 þættir á viku, en á sunnudögum mun ungu kvikmyndagerðarfólki bjóðast að sýna stuttmyndir, bæði nýjar og gamlar, á stöðinni. Aðstandendur hennar eru ekki hræddir við fyrri fordæmi úr sjónvarpsrekstri hér á landi.

Á bakvið isTV eru þrettán áhugamenn um íslenska þátta- og kvikmyndagerð, en sjónvarpsstjóri er Jón E. Árnason. Guðmundur Týr Þórarinsson, sem jafnan gengur undir nafninu Mummi, kemur einnig að því að stýra verkefninu, en hann hefur töluverða reynslu úr kvikmyndageiranum.

Engar kvikmyndir eða erlendir þættir

Í samtali við mbl.is segir Mummi að ekkert verði um kvikmyndir í fullri lengd eða erlendar þáttaraðir. „Það verður einblínt á okkur sem þjóð í þessu,“ segir hann en tekur fram að ekki sé um þjóðrembu að ræða heldur vettvang fyrir ungt og skapandi fólk hér á landi til að koma vinnu sinni og hugmyndum á framfæri.

Matreiðsluþáttur sem er ekki matreiðsluþáttur

Dagskráin nær allt frá andlegum málefnum yfir í matreiðsluþátt og jaðarsport. Mummu tekur reyndar fram að matreiðsluþátturinn verði með nokkuð óhefðbundnu sniði og sé ekki eiginlegur matreiðsluþáttur. „Hér munu fæðast stjörnur sem stóru stöðvarnar munu svo kaupa,“ segir Mummi, en hann tekur fram að það sé einmitt ein af grunnhugmyndum stöðvarinnar að búa til stökkpall fyrir skapandi fólk.

Mummi segist hafa komið að verkefninu í kringum síðustu jól, en þar á undan var nokkur fjöldi einstaklinga búinn að ganga með hugmyndina í nokkurn tíma. Nú eru þrettán hluthafar að verkefninu og segir Mummi að ekki sé um nein pólitísk samtök eða trúfélög að ræða. IsTV verður til húsa í gömlu heilsuverndarstöðinni í Reykjavík.

Fordæmin hræða ekki

Aðspurður hvort að örlög sjónvarpsstöðvarinnar Miklagarðs, fyrr á þessu ári, hafi ekki dregið úr baráttuanda isTV manna segir hann að svo sé ekki. Nálgun þessara stöðva sé ólík á þann hátt að meðan Mikligarður var sölusjónvarp af bandarískri fyrirmynd, þá verði því ekki að skipta hjá isTV. Hann segir einnig að engar skuldir séu á félaginu, heldur eigi aðstandendur stöðvarinnar öll tæki og tól, því standi félagið vel í byrjun, þó reksturinn verði frekar einfaldur og ódýr.

Alþýðukvöld á sunnudögum

Á hverju kvöldi vikunnar verða um þrjár til fjórar frumsýningar, hver í 30 mínútna hólfi frá átta á kvöldin fram til tíu eða ellefu. Um helgar verður svo sýnt frá því besta í vikunni  og í hádeginu á sunnudögum verður þjóðmálaþáttur, en Mummi segir Íslendinga eiga að þekkja slíkt nokkuð vel.

Sunnudagskvöldin verða að sögn Mumma svo einskonar alþýðukvöld, þar sem opnað verður fyrir sýningar á íslenskum stutt- og heimildarmyndum sem leynast í hillum landsmanna. Segir hann að fjöldi landsmanna hafi reynt sig áfram í kvikmyndagerð gegnum árin og þarna verði búinn til vettvangur til að sýna slíkt efni. Þá muni þetta einnig passa sem sýningastaður fyrir útskriftarverkefni.

Fjöldi fólks kemur að sjónvarpsstöðinni, en útsendingar hefjast 17. júlí.
Fjöldi fólks kemur að sjónvarpsstöðinni, en útsendingar hefjast 17. júlí.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK