Viðræður við easyJet stóðu í átta ár

Í vikunni var tilkynnt að easyJet ætlaði sér að fljúga …
Í vikunni var tilkynnt að easyJet ætlaði sér að fljúga allt árið um kring til Íslands. Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi, var á landinu í tilefni af því. Eggert Jóhannesson

Flugfélagið easyJet mun, ólíkt öðrum flugfélögum, fljúga til og frá Keflavíkurflugvallar utan háannartíma næsta árið, en tilkynnt var um heilsársflug félagsins í vikunni. Mbl.is ræddi við Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia, um áhrif þess á flugstöðina og áhuga flugfélaga að koma hingað í heilsársflugi á næstu árum.

Eins og happdrættisvinningur

Undanfarin ár hefur mikil fjárfesting farið í flugstöðina á Keflavíkurvelli og segir Björn Óli að þegar flugfélag eins og easyJet ákveði að koma utan háannar sé það mjög jákvætt fyrir bæði flugfélagið og flugstöðina. Segir hann að þetta leiði til betri og fljótari afgreiðslu og þá nýti flugvöllurinn betur þá fjárfestingu sem sett hafi verið í uppbyggingu. „Það mætti segja að þetta sé eins og happdrættisvinningur,“ segir Björn Óli.

Hann tekur fram að með þessu fái easyJet einnig lausari hendur ef félagið áformar að breyta flugtímum lítillega. Það sé aftur á móti nánast ómögulegt fyrir þau félög sem eru á háannartíma. Tímar easyJet eru frá um níu á morgnana og fram til rúmlega ellefu. Á þeim tíma hefur verið mjög rólegt í flugstöðinni, en nú gæti eitthvað breyst í þeim efnum.

easyJet ekki á leið til Ameríku

Aðspurður hvort þetta bindi ekki easyJet niður ef félagið ákveður að skoða Ameríkuflug segir Björn Óli að það hafi komið skýrt fram í samræðum flugvallarins og easyJet á sínum tíma að flugfélagið ætlaði sér ekki vestur um haf.

Ef easyJet mun ganga vel í flugi yfir allt árið segir Björn Óli að það geti orðið ákveðinn stökkpallur fyrir fleiri félög. Það verði erfitt fyrir þau að horfa fram hjá því ef öll félög til og frá landinu nái góðum árangri á öðrum tímum en yfir sumarið. Aðspurður hvort Isavia hafi verið í viðræðum við önnur flugfélög segir hann að viðræður séu alltaf í gangi, en að ekkert sé komið á lokametrana.

Viðræðurnar tóku 7-8 ár

Björn Óli bendir á að viðræður við easyJet hafi fyrst hafist fyrir rúmlega 7-8 árum síðan. Þeir hafi svo gert tilraun árið 2012 sem hafi gengið mjög vel og nú stefni þeir á fullt flug allt árið um kring. „Ég hef trú á því að innan fárra ára muni fleiri flugfélög koma hingað til lands allt árið um kring,“ segir hann.

Þótt easyJet sé lágfargjaldaflugfélag segir hann að það þýði ekki hið sama og farþegar sem eyði minni fjármunum. „Þvert á móti þá virðist ekkert benda til að eyðsla þeirra [sem velja lágfargjaldaflugfélög] sé síðri,“ segir Björn Óli. Segir hann að fólk hafi oftast ákveðið hversu miklum fjármunum það ætli að eyða og þeir sem fari með lágfargjaldaflugfélögum ætli þá að eyða sínum peningum í afþreyingu á Íslandi í stað dýrara fargjalds.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Hann segir að easyJet hafi …
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Hann segir að easyJet hafi ekki áformað flug til Ameríku. Oddgeir Karlsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK