Barnaþrælkun í verksmiðju Samsung

AFP

Tæknirisinn Samsung hefur hætt viðskiptum við einn af birgjum sínum í Kína vegna grunsemda um að í verksmiðjunni starfi börn. Samsung hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki nægjanlegt eftirlit með aðbúnaði í verksmiðjum sem fyrirtækið er í samstarfi við.

Samsung hóf rannsókn á aðstæðum í verksmiðju Dongguan Shinyang Electronics Co. í kjölfar ábendinga frá mannréttindasamtökunum China Labor Watch (CLW), sem segja að í verksmiðjunni starfi börn undir sextán ára aldri.

„Í kjölfar rannsóknarinnar ákvað Samsung að hætta tímabundið viðskiptum við verksmiðjuna sem um ræðir, þar sem vísbendingar fundust um að börn væru látin vinna þar,“ segir í yfirlýsingu frá Samsung.

Samsung segir að kínversk yfirvöld séu einnig að kanna aðbúnað í verksmiðjunni. Fyrirtækið segir að ef niðurstaðan verði sú að börn vinni þar ólöglega verði viðskiptum við hana hætt til frambúðar.

Þá hefur Samsung ákveðið að herða á reglum varðandi starfsmannahald, ekki aðeins hjá sér, heldur einnig hjá birgjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK