Farið að líkjast gegnumstreymiskerfi

Hagfræðideild Landsbankans telur að hætta sé á því að lífeyriskerfið breytist smám saman í gegnumstreymiskerfi vegna vaxandi vægis eigna með ábyrgð opinberra aðila, og þar með sjóðfélaganna sjálfra, í eignasöfnum þeirra.

Í umfjöllun hagfræðideildarinnar um lífeyriskerfið segir að þótt samsetning eigna lífeyrissjóðanna sé nokkuð dreifð sé staðan sú að tæplega helmingur verðbréfaeignar þeirra sé með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Félagsmenn sjóðanna séu sjálfir skattgreiðendur og beri þannig ábyrgð á helmingi þeirra eigna sem ætlað sé að tryggja lífeyri þeirra.

Með þessu áframhaldi segir hagfræðideildin að hætta sé á að lífeyriskerfið breytist í gegnumstreymiskerfi.

Til útskýringar greiðir gegnumstreymiskerfi eftirlaunaþegum lífeyri beint af tekjum þeirra sem eru vinnandi. Kerfið gerir þannig ráð fyrir að ein kynslóð greiði fyrir aðra eða að vinnandi fólk greiði af sköttum fyrir eldri kynslóðir og njóti síðan í staðinn sambærilegra greiðslna frá börnum sínum eftir að það er sest í helgan stein.

Í umfjöllun hagfræðideildarinnar er bent á að um síðustu áramót hafi tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð opinberra aðila verið neikvæð um sex hundruð milljarða króna, eða um tæpan þriðjung landsframleiðslunnar.

„Þessi vandi snýr ekki einungis að félagsmönnum þessara sjóða heldur einnig beint að skattgreiðendum sem í rauninni skulda félagsmönnum sjóðanna þessa stóru upphæð. Í tilviki opinberu sjóðanna vantar um helming til þess að það sé hægt að standa við áunnar lífeyrisgreiðslur og þar bera ríki og sveitarfélög ábyrgð á mismuninum.

Sumir þessara sjóða stefna í þrot verði ekki brugðist fljótlega við og bæði lífeyrisþegar og skattgreiðendur eiga kröfu á að sjá hvernig á verður haldið,“ segir hagfræðideildin.

Kerfið áhættusamara

Hún bendir einnig á að lífeyrissjóðirnir séu orðnir mjög fyrirferðarmiklir á innlendum fjárfestingarmarkaði og að innlend ávöxtun þeirra sé ágæt um þessar mundir. Það sé aftur á móti áhættusamt fyrir lífeyrisþega framtíðarinnar að lífeyrissjóðirnir hafi einungis úr innlendum fjárfestingarmöguleikum að velja, sérstaklega þegar til lengdar láti.

„Gjaldeyrishöftin standa nú í vegi fyrir að lífeyrissjóðirnir geti aukið erlendar fjárfestingar sínar, sem er nauðsynlegt vegna dreifingar áhættu. Sjóðirnir eru orðnir mjög stórir miðað við flestar hagstærðir innanlands og rúmast varla innan þeirra. Þetta má til dæmis sjá á beinu eignarhaldi sjóðanna á skráðum félögum á hlutabréfamarkaði, en sjóðirnir áttu nú í byrjun júlí yfir og allt að helmingi sumra félaganna og alls 33,5% af heildarmarkaðsvirði félaga í Hauphöllinni,“ segir í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans.

Lífeyrissjóðirnir eru fyrirferðarmiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Lífeyrissjóðirnir eru fyrirferðarmiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK