Áralöng barátta fyrir miskabótum

Karlmaður í kirkju í Kuala Lumpur.
Karlmaður í kirkju í Kuala Lumpur. AFP

Aðstandenda þeirra 298 farþega flugs MH17 sem fórst þegar flugskeyti hæfði farþegaþotuna bíður áralöng barátta fyrir miskabótum. Sú barátta verður háð á pólitísku sviði og fyrir dómstólum. Málin verða flókin og kostnaðarsöm. En áður að því kemur er það Malaysian Airlines sem þarf að borga brúsann.

Tryggingafélög og lögfræðingar sérhæfðir í flugmálaiðnaðinum eru þegar farnir að ráða ráðum sínum vegna hraps Boeing 777-200 farþegaþotu malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines um miðjan gærdag í austurhluta Úkraínu. Ljóst er að flugfélagið þarf að greiða aðstandendum hvers farþega 170 þúsund Bandaríkjadali, jafnvirði 19,5 milljóna íslenskra króna, og skiptir þá engu hvort flugfélagið beri sök eða ekki.

Mögulega verður þó komist að þeirri niðurstöðu að Malaysian Airlines beri hluta ábyrgðar þar sem ákveðið var að fljúga yfir átakasvæði, sem felur óneitanlega í sér áhættu. „Vandræði Malaysian Airlines felast í því að aðstandendur farþega munu halda því fram að stjórnendur flugfélagsins vissu að vélinni var flogið yfir átakasvæði og að tvær flugvélar hefðu verið skotnar niður á svæðinu í vikunni á undan,“ segir Kevin Bartlett, lögfræðingur hjá lögfræðistofunni Cooper Grace Ward, í samtali við Wall Street Journal.

Þetta er sérlega slæmt fyrir flugfélagið sem nýverið þurfti að greiða út hluta bóta til aðstandenda farþega flugs MH370 en eins og flestir vita hvarf sú farþegaþota flugfélagsins sporlaust 8. mars 2014. Hlutabréf í Malaysian Airlines hafa enda lækkað mikið í dag og eru efasemdir um hvort það geti yfirleitt haldið áfram rekstri.

Joseph Wheeler, lögfræðingur hjá lögfræðistofunni Shine, segir að framundan séu löng og afar flókin málaferli og ef litið sé til umfangsins sé verið að tala um hundruð milljóna Bandaríkjadala.

Blóm sem komið hefur verið fyrir við Schiphol-flugvöll í Amsterdam.
Blóm sem komið hefur verið fyrir við Schiphol-flugvöll í Amsterdam. AFP
MH17 þar sem hún hrapaði í austurhluta Úkraínu.
MH17 þar sem hún hrapaði í austurhluta Úkraínu. AFP
Brak úr MH17, farþegaþotu Malaysian Airlines.
Brak úr MH17, farþegaþotu Malaysian Airlines. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK