Bið á framkvæmdum á Hveravöllum

Nýtt hús verður byggt á Hveravöllum um 200 metra frá …
Nýtt hús verður byggt á Hveravöllum um 200 metra frá núverandi húsnæði. Skipulagsstofnun hefur til skoðunar breytingu á deiliskipulagi um að nýtt hús verði stækkað og geti hýst um 80 gesti. Brynjar Gauti

Ekki verður hafist handa við byggingu nýs fjallaskála á Hveravöllum á þessu ári, en stefnt er að því að því að hann verði tilbúinn árið 2016. Þórir Garðars­son, stjórnarformaður Hveravallafélagsins og Iceland Excursions, segir í samtali við mbl.is að unnið sé að breytingu á deiliskipulagi, en félagið óskaði eftir að fá að stækka skálann frá upphaflegri hugmynd.

Beiðni um stærra hús til skoðunar

Í fyrra sagði mbl.is frá því að gert væri ráð fyrir að Húna­vatns­hrepp­ur hefði selt Iceland Excursions hlut sinn í Hveravallafélaginu og samið um uppbyggingu á svæðinu. Þá var gert ráð fyrir að húsið gæti tekið 50-70 gesti, en samkvæmt núverandi hugmyndum er áætlað að 80 gestir geti verið í húsinu.

Þórir segir að þetta sé meðal annars gert vegna aukinna krafna varðandi aðbúnað starfsfólks og aðgengi og aðstöðu fyrir fólk í hjólastól. „Við erum að færa það nær nútímakröfum,“ segir Þórir. Húsið verður á einni hæð og á bilinu 1.600 til 1.700 fermetrar samkvæmt núverandi drögum.

Unnið hefur verið að rafmagns- og fráveitumálum á svæðinu undanfarið, en í heild er gert ráð fyrir að kostnaður við uppbygginguna hlaupi á hundrað milljónum.

Líkt og fjallaskálar í Ölpunum

Þórir segir að ekki sé hægt að miða skálann við aðra fjallaskála hér á landi, heldur sé þetta bæði skáli og hótel og nærtækast væri að horfa til svipaðra húsa í Ölpunum. Allavega sé ekki um að ræða neina gámastæðu og mikið sé lagt upp úr að það falli vel að umhverfinu. Í húsinu á einnig að vera aðstaða fyrir landverði á svæðinu, en Þórir segir það mikilvægt fyrir svæðið að huga vel að umhverfinu og hafa starfsfólk þar.

Vill uppbyggðan Kjalveg

Mikið hefur verið rætt um Kjalveg síðustu misseri, en hann hefur verið illfær vegna úrkomu og hafa fjölmargar holur myndast í veginum. Þórir segir að hækka þurfi veginn um hálfan metra. „Það þarf að byggja hann aðeins upp úr jörðinni og hafa bundið slitlag. Hann breytist í árfarveg í dag þar sem hann er lægsti punktur,“ segir Þórir. Í núverandi mynd er vegurinn ekki boðlegur bílum og segir Þórir að núverandi staða kalli á utanvegaakstur.

Í dag koma um 50 þúsund manns við á Hveravöllum á ári hverju og Þórir segir að það þurfi alvarlega að fara að huga að því að bæta aðstöðu þar. Segir hann að fólk þurfi að geta farið á klósettið og annað í þeim dúr og núverandi aðstaða geti illa sinnt því.

Geta lokað hálendinu ef ekki er talað í lausnum

Spurður hvort betri vegur og bætt aðgengi geri Hveravelli ekki að risastórum ferðamannastað, líkt og Gullfoss og Geysir eru í dag, segir Þórir að ekki sé hægt að hugsa svona og skríða alltaf til baka þótt upp komi vandamál, heldur þurfi að hugsa í lausnum. „Ef menn geta ekki séð það og talað í lausnum verða menn að loka hálendinu,“ segir hann og bætir við að margir tali alltaf um ferðamenn sem bagga á þjóðinni, meðan þeir skili í raun gífurlega miklu til samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK