Landsvirkjun tjáir sig ekki um kísilverðstengingu

Landsvirkjun hefur lagt mikið upp úr að aftengja samninga félagsins …
Landsvirkjun hefur lagt mikið upp úr að aftengja samninga félagsins við álverð. Félagið gefur ekki upp hvort nýir samningar vegna kísilvers séu tengdir verði hrávöru. mbl.is/Sigurður Bogi

Landsvirkjun vill ekki gefa upp hvort nýr samningur við kísilverið United Silicon í Helguvík innihaldi tengingu við heimsmarkaðsverð á kísil eða annarri hrávöru. Slíkir samningar voru lengi tíðkaðir við álver hér á landi og eru enn stór hluti af þeim raforkusamningum með álverðstengingu. Þetta hefur leitt til þess að meiri sveiflur geta verið á tekjum Landsvirkjunar og síðustu ár hafa tekjurnar farið lækkandi í kjölfar lægra verðs á heimsmarkaði.

Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, hefur lengi talað gegn þessari tengingu og viljað minnka vægi hennar. Þetta var meðal annars eitt af atriðunum sem haft var að leiðarljósi þegar Landsvirkjun endursamdi við Alcan árið 2010, en þá var tengingin afnumin að fullu. Önnur álver hafa slík ákvæði þó enn í samningum sínum og eru þau jafnan til umfjöllunar þegar uppgjör Landsvirkjunar eru kynnt.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að greina frá því hvort tenging sé á þessum nýjasta samningi þar sem fyrirtækið eigi í viðræðum við fleiri aðila eins og PCC á Bakka og fleiri fyrirtæki sem hafi áhuga á að koma hingað. „Það getur haft áhrif á þessi fyrirtæki ef við erum að ræða um hrávöruverðstengingu, hvort og hvernig hún gæti verið í samningum hjá okkur,“ segir hann.

Hann segir þetta ekki feluleik, heldur muni fyrirtækið þurfa að gefa upp frekari upplýsingar þegar fram líða stundir, en næstu tvö til þrjú árin gerir hann ekki ráð fyrir að samningurinn við United muni hafa mikil áhrif á fjárhag Landsvirkjunar.

Þegar Björgvin er spurður hvort Landsvirkjun loki algjörlega á alla tengingu segir hann að í einhverjum tilfellum geti slíkt átt við. „Almennt viljum við ekki vera hrávöruverðstengdir, það hlýtur að vera augljóst mál, en í einhverjum tilfellum erum við til í að slá af þeim kröfum til að fá fyrirtæki til landsins,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK