Hagnaður hjá Össuri

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður stoðtækjafyrirtækisins Össurar nam sautján milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um tvo milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi og jókst um 106% frá því á sama tíma í fyrra.

Össur birti í gær uppgjör sitt fyrir fjórðunginn, en þar kemur fram að sölutekjur fyrirtækisins hafi numið 133 milljónum dala, samanborið við 106 milljónir dala árið áður. Söluaukningin var því 23% milli ára, þar af 3% innri vöxtur, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt.

EBITDA-rekstrarhagnaður félagsins nam 29 milljónum dala á fjórðungnum og EBITDA-framlegð 22% af sölu. Jókst EBITDA-rekstrarhagnaður um 14 milljónir dala á milli ára. IFS Greining hafði spáð að EBITDA yrði um 27 milljónir dala.

Í tilkynningu frá Össuri kemur fram að sala á spelkum og stuðningsvörum hafi aukist um 30% borið saman við annan fjórðung 2013. Sala á stoðtækjum jókst að sama skapi um 15%, þar af var innri vöxtur 8%.

Vegna mikils söluvaxtar í stoðtækjum, aukinnar skilvirkni í rekstri og kaupa á tveimur litlum fyrirtækjum á árinu hefur Össur endurskoðað áætlun sína fyrir 2014. Búist er við meiri söluvexti og hærri EBITDA-framlegð sem hlutfall af sölu en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Árangurinn ánægjulegur

Jón Sigurðsson forstjóri segir í tilkynningu að árangur á fyrri helmingi ársins sé einkar ánægjulegur. „Árið fór vel af stað og nú á öðrum ársfjórðungi skilum við methagnaði og áframhaldandi sterku sjóðsstreymi.“

Söluvöxtur sé góður og árangur þeirra félaga sem Össur hafi keypt undanfarið sé í takti við væntingar. „Sala á stoðtækjum er mjög góð og þá sérstaklega sala á hátæknivörum sem staðfestir velgengni okkar á þeim vettvangi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK