Útleiga íbúða til ferðamanna er framtíðin

mbl.is/Þórður

Mikil eftirspurn erlendra ferðamanna eftir leiguíbúðum í Reykjavík er komin til að vera og verður ekki aftur snúið í þeim efnum. Því verður áfram mikil eftirspurn eftir eignum á góðum stöðum sem henta vel til slíkrar útleigu. Sú eftirspurn mun áfram þrýsta upp fasteignaverði í miðborginni, ekki síst ef spár um mikla fjölgun ferðamanna rætast.

Þetta er mat Baldvins Baldvinssonar, annars eigenda og stjórnarformanns bókunarvefsins Iceland Summer sem leigir út íbúðir í Reykjavík, á Höfn og Akureyri, fyrir hönd eigenda þeirra.

Vilja meiri upplýsingar

Baldvin segir eina afleiðingu netsins og snjallsímavæðingar þá að almenningur vilji orðið sífellt meiri upplýsingar um vörur og þjónustu. Ferðalög séu þar ekki undanskilin.

„Netið hefur gert það miklu auðveldara fyrir venjulegt fólk að skipuleggja ferðir sínar. Allt aðgengi að upplýsingum er orðið mjög auðvelt. Það þarf ekki lengur að notast við ferðaskrifstofur heldur er nóg að fara á netið og á bókunarsíður. Á vefsíðum eins og Dohop.com er hægt að velja dagsetningu og lægsta verð á flugi. Að því loknu er hægt að finna gistingu á bókunarsíðum eins og Booking.com eða AirBnB [sem bjóða þúsund íbúðir í Reykjavík til leigu]. Þar má tilgreina nákvæmlega hvaða óskir viðskiptavinurinn hefur. Þannig er hægt að skipuleggja ferðina miklu betur eftir þörfum hvers og eins en ef um væri að ræða pakkaferð hjá ferðaskrifstofu. Undirbúningur ferðanna er því orðin gífurlega nákvæmur og ólíklegt er að viðskiptavinurinn verði fyrir vonbrigðum með það sem hann fær.“

Baldvin bendir á að á netinu sé hægt að nálgast ljósmyndir af hótelum og leiguíbúðum og afla upplýsinga um afþreyingu og þjónustu, sem áður tók langan tíma að afla.

Viðskiptavinir vilji sjá hvað þeir fá fyrir peninginn áður en þeir borga.

Hann segir regluverkið um útleigu íbúða í fjöleignarhúsum ekki hafa aðlagast ört vaxandi markaði.

„Áður en við hófum reksturinn fyrir fimm árum fórum við í gegnum allar reglur varðandi leigu íbúða á Íslandi. Þá sá maður hvað lagaumhverfið er gamaldags og úr takti við tímann. Lögin um fjöleignarhús eru komin til ára sinna. Þegar þau voru sett var ekki umfangsmikil leiga á íbúðum eins og nú er. Það þarf því að aðlaga lögin svo hlutirnir gangi betur. Dæmi um hvað lögin eru úrelt eru mismunandi kröfur eftir því hvort um skammtíma- eða langtímaleigu er að ræða. Við þurfum að fá leyfi frá heilbrigðiseftirliti, Brunamálastofnun og sýslumanni til þess að geta verið með íbúð í útleigu. Þetta er eðlilegt. Þessi krafa á hins vegar aðeins við þá sem leigja íbúðirnar í allt að sjö nætur. Ef íbúðin er leigð út í meira en átta daga þarf hins vegar ekki þessi leyfi. Þá spyr maður sig hvort ekki þurfi alveg eins leyfi frá heilbrigðiseftirliti og brunaeftirliti fyrir þá sem eru alla daga í húsum sínum, þ.e.a.s. í langtímaleigu, því þá er notkunin á húsnæðinu miklu meiri,“ segir Baldvin.

Aðeins 1% veldur ónæði

„Ég hef rætt við marga sem leigja út íbúðir. Það er gaman að segja frá því að nágrannar voru hræddir við útleiguna í byrjun. Svo hefur komið í ljós að það er mun minna ónæði af ferðamönnum en af fjölskyldum. Hefðbundnum fjölskyldum getur fylgt ýmislegt ónæði eins og óþrifnaður, slæm umgengni, reykingar, partístand og mikið slit á húsnæði. Ferðamenn fara úr húsi á morgnana og eru í burtu allan daginn. Ég myndi giska á að ónæði sé vegna 1% ferðamanna. Reynslan er ótrúlega góð. Við höfum leigt út eignir sjálfir og höfum heyrt hjá fasteignasölum og öðrum sem við skiptum við að þeir vilja fá svona rekstur í húsin.“

– Hvaða áhrif hefur útleiga mörg hundruð íbúða, jafnvel 1.500 til 2.000, á fasteignamarkaðinn?

„Hún hefur þau áhrif að fasteignaverð hækkar. Því meira framboð sem er af slíkum íbúðum þeim mun meira hækkar leiguverð og fasteignaverð. Framboðið minnkar á hinum almenna markaði. Þar af leiðandi verða eignir á almennum markaði hærra verðlagðar, vegna þess að það er til svo lítið af eignum.“

Iceland Summer greiðir 14.000 kr. á nótt fyrir 2ja manna íbúð, 17.000 kr. fyrir fjögurra manna íbúð og 21.000 kr. fyrir sex manna íbúð. Þá er boðið upp á fast mánaðargjald fyrir góðar íbúðir eða hús, einn, tvo eða þrjá mánuði í senn. Mánaðarleigan er jafnan 100-250 þúsund kr.

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK