Stærsta farsímanetið villandi

Fullyrðingar um stærsta farsímanet landsins hjá Símanum eru villandi að …
Fullyrðingar um stærsta farsímanet landsins hjá Símanum eru villandi að sögn Neytendastofu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fullyrðing Símans um að fyrirtækið væri með stærsta farsímanet landsins var villandi og þarf það að skýra frekar hvað átt er við þegar slíkt er sett fram. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Neytendastofu, en Vodafone kvartaði vegna auglýsingaherferðar Símans sem bar yfirskriftina „Segjum sögur“.

Í henni komu fram fullyrðingar um að Síminn væri með stærsta farsímanet landsins. Vodafone taldi að auglýsingarnar væru villandi þar sem engar sönnur hafi verið færðar á fullyrðinguna. Síminn hafnaði því að auglýsingarnar væru villandi eða blekkjandi þar sem farsímanet fyrirtækisins samanstæði af dreifikerfum fyrir GSM (2G net), UTMS (3G net) og LTE (4G net) og því þyrfti að líta til heildarinnar sem geri það að verkum að net Símans sé stærst. 

Neytendastofa taldi að þar sem í auglýsingunum kæmi ekki fram hvað átt væri við með stærsta farsímanetinu, það er hvort átt væri við stærsta þjónustusvæðið eða stærsta net þjónustukerfa með flestum sendum, væru auglýsingarnar villandi. Bæði stærð þjónustusvæðis og stærð dreifinets geta haft áhrif á ákvörðun neytenda um viðskipti þar sem hvort tveggja getur haft áhrif á þá þjónustu sem þeir njóta. Því þarf að koma skýrt fram hvað átt sé við með stærð farsímanets, það er hvort um sé að ræða stærð þjónustusvæðið eða stærð dreifinets og fjölda senda. 

Uppfært kl 12:12:

Mbl.is barst tilkynning frá Símanum þar sem kemur fram að málinu verði áfrýjað og að Síminn hafi fært sönnur á að fyrirtækið sé með stærsta farsímanetið. Úr tilkynningu Símans:

„Neytendastofa segir orðrétt: „Þar sem Síminn hefur lagt fram gögn til staðfestingar að félagið hafði yfirburði yfir keppinauta í stærð dreifinets og fjölda senda þegar auglýsingin var birt telur Neytendastofa fullyrðinguna sannaða.“ Í sömu ákvörðun er engu að síður komist að þeirri niðurstöðu að fullyrðing Símans um að fyrirtækið sé með stærsta farsímanetið feli í sér „villandi viðskiptahætti“. Ástæðan er sú að ekki hafi verið nákvæmlega tilgreint hvað væri átt við með stærsta farsímaneti. Neytendastofa telur mögulegt að skýra það með vísan til útbreiðslu eða stærðar dreifikerfis. Fullyrðing Símans um stærsta farsímanetið var hins vegar afar skýr og studd staðreyndum eins og í ljós hefur komið. Síminn telur að túlkun Neytendastofu sé í meira lagi vafasöm og mun vísa málinu til Áfrýjunarnefndar neytendamála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK