Engir hvatar fyrir erlenda sérfræðinga

Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Verslunarráðs.
Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Verslunarráðs. Eggert Jóhannesson

Engir hvatar eru fyrir erlenda sérfræðinga til að koma og vinna fyrir íslensk fyrirtæki sem þarfnast starfskrafta þeirra í stuttan tíma. Á sama tíma bjóða nágrannaþjóðir okkar upp á skattaafslátt og snögga afgreiðslu atvinnuleyfa. Þetta kemur fram í skoðun Viðskiptaráðs Íslands.

Þar segir að ein afleiðing alþjóðavæðingar sé sú að fyrirtæki sækist í auknum mæli eftir því að ráða tímabundið til starfa sérhæft erlent starfsfólk. Samkeppni um þetta starfsfólk takmarkast ekki við landamæri og því keppast ríki heims um að bæta starfsskilyrði erlendra sérfræðinga.

Viðskiptaráð segir Ísland standa höllum fæti enda eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur innleitt lög sem ætlað er að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga. Þannig sé skattaumgjörð þeirra óhagstæðari hérlendis en víða erlendis og afgreiðsla dvalar- og atvinnuleyfa taki lengri tíma. Þá hjálpi þættir eins og framboð alþjóðlegra skóla og gjaldeyrishöft ekki til við flutning sérfræðinga til landsins.

Í Danmörku geta erlendis sérfæðingar og aðrir lykilstarfsmenn sótt um að vera skattlagðir með þeim hætti að þeir greiði 25% flatan skatt af heildartekjum í allt að fimm ár að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. 

Í Noregi geta erlendir starfsmenn sótt um að 15% tekna þeirra verði undanþegnar skatti í tvö ár, þó að hámarki 40.000 norskra króna. Í Svíþjóð geta erlendir sérfræðingar, vísindamenn og aðrir lykil starfsmenn fengið 25% af heildartekjum undanþegnar tekjuskatti fyrstu þrjú árin. Gildir það jafnt yfir sænsk fyrirtæki og erlend fyrirtæki með tímabundna starfsstöð í Svíþjóð.

Í Finnlandi geta erlendir sérfræðingar og starfsmenn finnskra háskóla sem dvelja í yfir sex mánuði í ríkinu greitt 35% flatan tekjuskatt af heildartekjum í fjögur ár. Enn fremur bjóða stjórnvöld upp á aukna hvata til þess að laða að erlendra sérfræðinga með sérstaka hæfni eða þekkingu sem er af skornum skammti á heimamarkaði. Þessir hvatar felast meðal annars í því að 30% af launum sérfræðinganna eru undanþegin skatti. Auk þess eru öll gjöld í tengslum við atvinnu- og dvalarleyfi felld niður. 

Viðskiptaráð bendir á að hér á landi séu aftur á móti engin lög um erlenda sérfræðinga og að að meðaltali taki það fjóra til sjö mánuði fyrir þá að afla sér dvalar- og atvinnuleyfis, samanborið við einn til tvo mánuði í Svíþjóð. Stærsta orsökin á þessum mun, að sögn Viðskiptaráðs, er áætlaður afgreiðslutími Útlendingastofnunar á dvalarleyfum. Hér sé biðtíminn allt að þrír mánuðir, en tvær vikur í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK