Lífrænt ljúfmeti beint frá bónda

Hjónin Arnar Bjarnason og Rakel Halldórsdóttir.
Hjónin Arnar Bjarnason og Rakel Halldórsdóttir. mbl.is/Kristinn

Það hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu á fáeinum árum. Virðing Íslendinga í garð ferskra sælkeravara sem eru án aukaefna og ræktaðar í sátt og samlyndi við umhverfið hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Og þrátt fyrir að við séum enn skemur á veg komin en frændur vorir á Norðurlöndunum, þá kaupa nú æ fleiri vörur beint frá býli.

Hjónunum Arnari Bjarnasyni og Rakel Halldórsdóttur fannst aðgengi að ferskum, lífrænum vörum, beint frá býli, vera heldur lélegt hér á landi. Þau tóku til sinna ráða og hófu verslunarrekstur Frú Laugu í ágústmánuði árið 2009. Seinasta laugardag fagnaði verslunin fimm ára afmæli sínu.

„Við erum virkilega ánægð með hvað fólk hefur tekið okkur vel, bæði í búðinni okkar í Laugalæknum og eins á Óðinsgötu, þar sem við opnuðum verslun fyrir rúmlega einu og hálfu ári. Við finnum einnig fyrir því að mikil vakning hefur átt sér stað frá því við opnuðum fyrir fimm árum. Fólk hugsar nú meira um að borða lífrænt og veltir því janframt fyrir sér hvaðan maturinn kemur,“ segir Rakel í samtali við mbl.is.

Hún segir að þau hjónin hafi flutt hingað heim úr námi um áramótin 2002 og 2003. Þau hafi stundað nám í Boston í Bandaríkjunum og á Ítalíu og heillast þar af matarbúðum og hinum ýmsu bændamörkuðum sem buðu upp á ferskan og girnilegan mat, oftast þá beint frá bónda. 

Létu slag standa

„Við fluttum heim og stofnuðum fyrirtækið okkar, sem heitir Vín og matur. Við fórum strax að flytja inn vín, svo sem léttvín og freyðivín, og gúrmevörur sem erfitt var að nálgast hér,“ segir hún.

Það er alls ekki sjálfgefið að opna verslun eins og Frú Laugu.

Rakel segir að þeim hjónunum hafi fundist aðgengi að gæðavörum, beint frá býli, ekki vera nægilega gott hér á landi. „Okkur langaði til að bæta úr því á einhvern hátt en okkur fannst hins vegar ekki vera jarðvegur til að opna slíka búð þegar við fluttum heim úr námi.

En síðan skall hrunið á og í kjölfarið varð mikil vakning fyrir íslenskri samneyslu. Fólk fór meira að pæla í þessum málum, að borða hreinna og vildi fá að vita hvaðan maturinn kæmi. Þá ákváðum við að láta slag standa og opna matvörubúð. Þannig varð Frú Lauga til.“

Hugmyndin var sem sagt sú að bjóða upp á íslenskar vörur í versluninni sem kæmu beint frá bændum. Þau fóru hringinn í kringum landið, heimsóttu fjölmarga bændur og kynntu hugmyndina fyrir þeim. Viðtökurnar voru góðar og ekki leið langur tími þar til „boltinn byrjaði að rúlla,“ eins og Rakel orðar það.

Flytja einnig inn sælkeravörur

Fleiri og fleiri framleiðendur bættust síðan í hópinn eftir því sem leið á. „Það er bæði þannig að við höfum samband við bændur og þá hafa þeir einnig samband við okkur. Við náum kannski ekki að þefa uppi alla þá sem eru að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt,“ segir Rakel og hlær.

Það mætti segja að sumarið og haustið væri blómatíminn í grænmetisræktun á Íslandi, en þá er hægt að kaupa hér útiræktað grænmeti. Veturinn er heldur dauflegri en þau hjónin létu það ekki á sig fá.

Þau brugðu nefnilega á það ráð að flytja inn sælkeravörur, þá aðallega frá Sikiley og Norður-Ítalíu, en einnig frá Englandi. Þau flytja til dæmis inn ljúffenga lífræna ávexti frá Miðjarðarhafinu yfir veturinn og segir Rakel að nýlega hafi borist fyrsta uppskera sumarsins af lífrænum eplum frá Englandi, nánar tiltekið frá Checkworth dal í Kent. Eplin flytja þau inn án milliliðs, beint frá bónda.

Eins má finna vörur á borð við pasta, ólífuolíu, hunang og súkkulaði í nýlendavöruhorni verslananna.

Óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér

Eins og áður sagði var verslunin fyrst opnuð í Laugalæk fyrir fimm árum. Rúmum þremur árum síðar var önnur verslun opnuð á Óðinsgötu í miðbæ Reykjavíkur. Að sögn Rakelar er Frú Lauga með marga fasta viðskiptavini sem koma til þeirra reglulega. Sá hópur hafi farið stækkandi. Eins sé ávallt einhver straumur ferðamanna í verslanirnar, sér í lagi eftir að þau opnuðu í miðbænum.

Hver eru síðan framtíðarplönin?

„Við höfum ekki mótað okkur neina sérstaka stefnu hvað framtíðina varðar, nema það að halda áfram að gera vel og bjóða góða vöru á eins góðu verði og mögulegt er. Við ætlum að halda áfram á meðan fólk er ánægt með okkur, en höfum ekki lagt fram neinar áætlanir um að stækka eða bæta við okkur.

En maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Við vorum til dæmis aldrei með nein sérstök plön um að opna verslun á Óðinsgötunni. Málin þróuðust bara á þann veg,“ segir Rakel Halldórsdóttir að lokum.

mbl.is/Kristinn
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK