Keypt gjaldeyri fyrir 61 milljarð

Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands.
Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands. mbl.is/Ómar

Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, segir það vera alveg ljóst að án umfangsmikilla gjaldeyriskaupa bankans hefði gengi íslensku krónunnar hækkað verulega. Hrein gjaldeyriskaup bankans á millibankamarkaði hafa numið 61 milljarði króna það sem af er ári.

Már segir að stefnt sé að því að regluleg gjaldeyriskaup haldi áfram í núverandi umfangi svo lengi sem aðstæður breytist ekki umtalsvert. Eftir sem áður muni Seðlabankinn beita óreglulegum viðskiptum í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónunnar.

Hann kynnti ákvörðun peningastefnunefndar bankans um að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á kynningarfundi í morgun. Vext­irnir hafa nú verið óbreytt­ir Í 6% allt frá því í nóvember árið 2012.

Eins og alkunna er hefur Seðlabankinn verið afar umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði á undanförnum mánuðum. Þannig hefur bankinn keypt gjaldeyri verulega umfram það sem hann hefur selt bæði í reglulegum kaupum og óreglulegum viðskiptum. Már benti á að þessi gjaldeyrisviðskipti hefðu stuðlað að auknum stöðugleika krónunnar. Það væri „kannski ekki öllum ljóst hversu mikinn gjaldeyri bankinn hefur verið að kaupa á þessu ári“.

Nema um 3% af landsframleiðslu

„Við höfum nú þegar keypt fyrir rúman 61 milljarð króna, sem er um 3% af landsframleiðslu, á árinu Til samanburðar má áætla að vaxtagreiðslur í ár á erlendum skuldum ríkissjóðs verði tuttugu milljarðar króna,“ sagði Már og bætti við að árinu væri auðvitað ekki enn lokið.  

„Nú er það þannig að ef við höldum áfram að kaupa sex milljónir evra á viku eins og stefnt er að, verða það 312 milljónir evra á ári, eða 48 milljarðar króna, og mun það þá duga vel fyrir þessum vaxtagreiðslum. Og jafnframt verður einhver afangur upp í það að auka innlenda fjármögnun gjaldeyrisforðans,“ sagði Már á fundinum.

Fram kemur í Peningamálum, sem gefin voru út í dag, að gengi krónunnar hafa haldist tiltölulega stöðugt frá því Peningamálum í maí. Það hafi lækkað lítillega gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu og evru en um 2-2,5% gagnvart Bandaríkjadal og bresku pundi.

Þá hafi gjaldeyrisinnstreymi vegna komu erlendra ferðamanna til landsins og minni afborganir erlendra lána innlendra fyrirtækja og sveitarfélaga hafa stutt við gengið. Á móti hafi þróun vöruskiptajafnaðar verið óhagstæð og Seðlabankinn keypt talsvert af gjaldeyri á markaði, eins og áður var nefnt.

Gengi krónunnar miðað við vísitölu meðalgengis var rúmlega 206 stig á öðrum fjórðungi ársins sem er lítillega hærra en gert var ráð fyrir í maíspá bankans. Sem fyrr byggist grunnspá bankans á þeirri forsendu að gengið haldist óbreytt út spátímann miðað við stöðu vísitölunnar þegar spágerð lýkur. Gangi það eftir verður vísitalan rúmlega 206 stig út spátímann sem er svipað og í maíspá bankans.

Sjá frétt mbl.is: Óbreyttir vextir í 21 mánuð

Seðalabanki íslands.
Seðalabanki íslands. mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK