Hægt að leigja Teslu fyrir 220 þúsund á dag

Gísli Gíslason stillir sér upp með einum af rafbílunum sem …
Gísli Gíslason stillir sér upp með einum af rafbílunum sem hann flytur inn. Rax / Ragnar Axelsson

Nú er hægt að leigja Tesla-bifreið í fyrsta skipti á Íslandi á vefsíðunni Caritas.is, en eins og mbl.is hefur áður greint frá er Caritas ný þjónusta sem gerir eigendum bifreiða kleift að leigja út ökutæki sín til annarra einstaklinga, hvort sem er Íslendinga eða ferðamanna. „Þeir sem þekkja íbúðaleigusíðuna Airbnb kannast við hugmyndina, en um er að ræða sams konar verkefni nema fyrir bíla,“ segir Janus Arn Guðmundsson, einn forsvarsmanna Caritasar.

Það er þó líklega ekki á færi allra að leigja Tesluna, sem er af árgerðinni 2013, þar sem dagsleigan hljóðar upp á tvö hundruð og tuttugu þúsund krónur. Að sögn Janusar ákveður eigandi bifreiðarinnar leiguverðið og er ekkert sem aðstandendur Caritas hafa um það að segja.

Gísli Gíslason, söluaðili Tesla á Íslandi og eigandi bifreiðarinnar, segir verðið vera varúðarráðstöfun. „Í fyrsta lagi kostar bíllinn tuttugu milljónir og afturdekkin kosta þrjú til fjögur hundruð þúsund krónur. Ef þú ferð illa með bílinn getur þú eytt dekkjunum á tuttugu mínútum. Hann er svo kraftmikill. Ég er að tryggja það að þeir sem leigja bílinn hafi efni á því og vilji keyra lúxusbíl,“ segir hann og bætir við að erlendis sé einnig hægt að leigja lúxusbíla  „en það kostar líka fullt af peningum.“ „Þá vilja þeir fá fólk sem fer ekki illa með bílinn og prófar hann í einn dag og eyðileggjur til dæmis dekkin.“

Skrá bílinn fyrir þig

Bílaleigan virkar þannig að eigandi bifreiðar skráir bílinn sinn til leigu á vefsvæði Caritas.is og þeir sem hyggjast leigja sér bíl geta leitað á síðunni og bókað bíl beint þar í gegn. Caritas er milliliður milli leigutaka og eiganda bifreiðar og starfar sem bílaleiga með leyfi frá Samgöngustofu. „Við sjáum ennfremur um skráningu á bifreiðum sem bílaleigubílum á meðan leigutíma stendur,“ segir Janus og bætir við: „Öll tryggingamál fara jafnframt fram í gegnum okkur en við höfum milligöngu um að bílarnir séu tryggðir sem bílaleigubílar á meðan útleigu stendur.“

Skref til rafbílavæðingar

Janus segir að með skráningu Tesla-bifreiðarinnar sé stigið ákveðið skref í átt til rafbílavæðingar hérlendis: „Þetta er í fyrsta skipti á Íslandi sem íslensk bílaleiga býður upp á Teslu til leigu. Teslan er auðvitað dálítið dýr en þessi tiltekni bíll kostar um 20 milljónir. Við eigum hins vegar von á ódýrari rafbílum, jafnvel í verðflokki hefðbundinna bensín- og díselbíla.“ Janus segir að eitt meginmarkmið Caritasar sé að draga úr mengun og rafbílar falli því vel að fyrirætlunum fyrirtækisins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Tesla sem nær 100 km hraða á 3,9 sekúndum eyðir engu nema rafmagni en ökutækið hefur notið talsverðra vinsælda í Noregi og er nú tólfti stærsti bílaframleiðandi á norska markaðnum. Gísli segir að um tuttugu Teslur séu á götunni hérlendis en von sé á 10 bílum til viðbótar á næstunni.

Tesla Model S rennur úr samsetningarverksmiðju í Tilburg í Hollandi.
Tesla Model S rennur úr samsetningarverksmiðju í Tilburg í Hollandi. AFP
Bílaleigan Caritas er afurð hugbúnaðarfyrirtækisins Integral Turing.
Bílaleigan Caritas er afurð hugbúnaðarfyrirtækisins Integral Turing. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK