Ísland hækkar um eitt sæti

Í umsögn Alþjóðaefnahagsráðsins segir að Ísland færist upp um eitt …
Í umsögn Alþjóðaefnahagsráðsins segir að Ísland færist upp um eitt sæti vegna umbóta á sviði þjóðhagfræðilegra þátta og tilslakana á fjármálamarkaði mbl.is/Árni Sæberg

Ísland hefur í fjögur ár í röð horft fram á litlar breytingar á stöðu sinni á lista yfir samkeppnishæfni þjóða en í september árið 2008 vermdi Ísland 20. sæti og 26. sæti árið 2009. Ísland situr nú í 30. sæti og færist upp um eitt sæti frá árinu 2013.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) sem birt var í gær. Mælingar á samkeppnishæfni þjóða byggja á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda á vinnumarkaði í 144 löndum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands aflar gagna hérlendis fyrir Alþjóðaefnahagsráðið sem síðan sér um úrvinnslu þeirra. 

Mennta- og heilbrigðismál styrkur Íslands

Í umsögn Alþjóðaefnahagsráðsins segir að Ísland færist upp um eitt sæti vegna umbóta á sviði þjóðhagfræðilegra þátta og tilslakana á fjármálamarkaði. Þrátt fyrir erfiðleika síðustu ára á þessum sviðum, þá heldur Ísland áfram að njóta nokkurra sterkra stoða samkeppnishæfni og færist samkeppnisstaða landsins því til betri vegar.

Samkeppnishæfni Íslands byggir ekki síst á góðri stöðu heilbrigðis-og menntamála en einnig er bent á að nýsköpun og áhersla á tækninýjungar sé mikill drifkraftur í íslensku efnahagslífi og leiði til aukinnar framleiðni á mörgum sviðum. Þessi styrkleiki er svo studdur af skilvirkum vinnumarkaði og þróuðum og sterkum innviðum.

 „Mörgu ber að fagna í þessari niðurstöðu sem ef til vill markar að viðsnúningur geti nú blasað við í þessum efnum. Mikið verk er framundan að efla stöðu landsins. Ég fagna því að nýsköpunarumhverfi okkar nýtur viðurkenningar og hlakka til að hefja sóknina á ný til þess að endurheimta það sem glatast hefur“ segir Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, aðspurður um niðurstöðu skýrslunnar á vef Nýsköpunarmiðstöðvar.

Veikur fjármálamarkaður og veik efnahagsstjórn

Eins og undanfarin ár eru veikleikarnir enn sem fyrr veikur fjármálamarkaður, veik efnahagsstjórn, ónæg framleiðni á ýmsum sviðum og smæð heimamarkaðar. Núverandi staða gjaldeyrisviðskipta og aðgangur að fjármagni eru meðal margra þátta sem draga úr samkeppnishæfni Íslands.  

„Auðvitað er staða Íslands á þessum lista ekki ásættanleg. Það að standa í stað er ekki valkostur því að ef okkur á að takast að efla velferð og bæta hér lífskjör þá verðum við einfaldlega að efla nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífs og stjórnsýslu. Eftir að hafa heimsótt fjölda fyrirtækja á undanförnum mánuðum veit ég að hugmyndirnar og nýsköpunarkrafturinn eru til staðar – núna ríður á að virkja hann enn frekar. Ríkisstjórnin vinnur að því hörðum höndum að styðja við nýsköpunarstarf, m.a. með því að verja auknu fé í Tækniþróunarsjóð, einfalda regluverk og finna leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á vef Nýsköpunarmiðstöðvar. 

 Sviss vermir efsta sætið á listanum sjötta árið í röð og Singapore heldur öðru sæti. Bandaríkin, sem lengi trónuðu á toppnum, eru nú í þriðja sæti og Finnland í því fjórða. Þýskaland fellur um eitt sæti og er í því fimmta  og Japan fer upp um þrjú sæti og í það sjötta. Þar á eftir koma svo Hong Kong, Holland og Bretland en í tíunda sæti er Svíþjóð sem fellur um fjögur sæti frá fyrra ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK