Í yfirlýsingu Samsung segir að saksóknari í Seúl í S-Kóreu hafi verið beðinn um að rannsaka stjórnendur hjá kóresku fyrirtæki sem sáust vinna skemmdarverk á þvottavélum sem voru til sölu í nokkrum verslunarmiðstöðum í Berlín. Þá staðfesti talsmaður Samsung í samtali við San Fransisco Gate dagblaðið að fyrrgreint fyrirtæki væri LG.

Árleg vöruráðstefna raftækjafyrirtækja var í gangi í Berlín þegar hin meintu skemmdarverk eiga að hafa verið framin. Í yfirlýsingunni sagði að það væri miður að fara þyrfti fram á rannsókn á stjórnendum fyrirtækisins en hins vegar hafi það verið óhjákvæmilegt í þágu samkeppninnar.

Forsvarsmenn LG vísa ásökunum Samsung á bug og sögðu í yfirlýsingu að stjórnendur fyrirtækisins hefðu vissulega skoðað ýmsar vörur í búðum í Berlín enda væri eðlilegt að skoða vörur samkeppnisaðila. Hins vegar hefðu engin skemmdarverk verið unnin og ef það hefði verið ætlunin hefðu stjórnendur fyrirtækisins ekki verið látnir í verkið.