Þrír kostir og allir slæmir

AFP

Spenn­an er gífurleg í aðdraganda þjóðar­at­kvæðagreiðslunnar um sjálf­stæði Skot­lands og samkvæmt nýjustu könnunum eru sam­bands­sinn­ar með naumt for­skot á sjálf­stæðissinna. 50% ætla að hafna sjálf­stæði en 45% styðja það.

Ef svo fer að Skotar kjósa sjálfstæði bíða nokkur álitamál rétt handan við hornið og eitt það stærsta og mikilvægasta varðar án efa gjaldmiðilinn. Þá hafa tveir stærstu bankar Skotlands, Royal Bank of Scot­land og Lloyd's, þegar tilkynnt að þeir muni flytja höfuðstöðvar sínar til London ef Skotar samþykkja sjálf­stæði í atkvæðagreiðslunni.

Hvað gjaldeyrinn varðar virðast tveir kostir þegar vera úr myndinni samkvæmt umfjöllun Business Insider. Fyrsti kosturinn og líklega sá besti í stöðunni væri að halda breska pundinu og hlíta enn peningamálastefnu Breska seðlabankans. Bresk stjórnvöld hafa hins vegar þegar útilokað möguleikann á slíku samstarfi. Þá gætu Skotar einnig tekið upp evruna en samkvæmt skoðanakönnunum væri það þjóðinni þvert um geð.

Þrír kostir og jafnframt ókostir

Þrír kostir standa þá eftir. Í fyrsta lagi gætu Skotar haldið pundinu án stuðnings breska Seðlabankans, líkt og Bandaríkjadalurinn er notaður í Panama og evran í Mónakó. Í öðru lagi væri hægt að búa til nýjan gjaldmiðil og festa gengi hans við gengi pundsins til þess að takmarka áhættu og í þriðja lagi væri hægt að búa til nýjan gjaldmiðil og láta hann fljóta og ráðast þannig af markaðnum hverju sinni.

Ókostir fylgja hins vegar hverjum kosti að mati Neville Hill, yfirmanni hjá svissneska fjármálafyrirtækinu Credit Suisse. Hann bendir á fyrsta möguleikann og segir lönd sem taka upp annan gjaldmiðli án stuðnings viðkomandi seðlabanka þurfa á stöðugu bankakerfi að halda. Bankakerfi Skotlands fellur ekki að þeirri lýsingu og til marks um það má nefna að Royal Bank of Scotland var þjóðnýttur í fjármálakreppunni árið 2008 og eiga bresk stjórnvöld enn 81 prósent hlut í honum.

Að öðrum kostinum, ef tekinn væri upp nýr gjaldmiðill og gengi hans fest við gengi pundsins, myndu tvenns konar vandamál blasa við hinum nýi seðlabanka. Bæði þyrfti hann að halda genginu stöðugu og vera bakland hins stóra skoska bankakerfis sem nemur um 1.200 faldri landsframleiðslu.

Hvað þriðja kostinn varðar, fljótandi gengi, telur Hill mikla hættu á gríðarlegu útflæði fjármagns frá Skotlandi til Englands með tilheyrandi skaða fyrir gjaldmiðilinn. „Að aðskilja gjaldeyrisbandalag er eins og að skilja mjólk frá kaffi,“ segir hann í samtali við Business Insider.

Kjörkassar fyrir atkvæðagreiðsluna á morgun
Kjörkassar fyrir atkvæðagreiðsluna á morgun AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK