Forrest Gump er innblásturinn

Jack Ma, stofnandi kínverska tæknifyrirtækisins Alibaba, hefur horft á kvikmyndina Forrest Gump tíu sinnum og segist innblásinn af samnefndri persónu.

Talið er að Alibaba verði um 168 millj­arða doll­ara virði eftir frumút­boð hluta­bréfa í félaginu í Bandaríkjunum í dag. „Mér líkar við Forrest Gump og hef horft á myndina um tíu sinnum,“ sagði Ma í viðtali við CNBC í dag. „Alltaf þegar ég verð pirraður horfi ég á myndina.“

Ma segist hafa dregið þann lærdóm af myndinni að vera alltaf hann sjálfur, sama hvað hlutirnir breytast í kringum hann. „Ég er ennþá sami maðurinn og ég var fyrir fimmtán árum þegar ég hafði um 20 dollara í mánaðarlaun.“

Hann sagðist fyrst hafa fengið áhuga á Internetinu þegar hann var á ferðalagi í Bandaríkjunum árið 1995 og langaði að færa netheima til Kína. Það var svo árið 1999 sem hann sannfærði vini og kunningja um að lána sér 60 þúsund dollara til að stofna fyrirtækið. Fimmtán árum síðar er fyrirtækið orðið að tæknirisa og Ma, sem er fyrrverandi enskukennari, er á meðal ríkustu manna Kína og metinn á um ellefu milljarða dollara samkvæmt Forbes tímaritinu.

Ebay og svo margt annað

Segja má að Alibaba sé kínverska útgáfan af ebay og reyndar mörgum öðrum fyrirtækjum. Það er annað tveggja stærstu tæknifyrirtækja Kína og rekur fjölmargar netverslanir, þ.á.m. Aliexpress sem er Íslendingum velkunnug. Þá sér fyrirtækið einnig um leitarvélar, netgreiðslukerfi og býður upp á gagnavistun í skýjunum.

Í fyrstu rak hann fyrirtækið frá íbúðinni sinni í borginni Hangzhou í austurhluta Kína. Hann segist hafa vitað það frá fyrstu reynslu af Internetinu að það myndi breyta landinu. Hann er útskrifaður kennari frá kennaraháskólanum í Hangzhou og starfaði sem slíkur í mörg ár.

Í viðtalinu við CNBC í dag sagðist Ma vona að Alibaba yrði einn daginn stærra fyrirtæki en Wal-Mart og gæti breytt heiminum til betri vegar. „Við eigum okkur draum,“ sagði hann. „Við vonum að eftir fimmtán ár muni fólk horfa á okkar fyrirtæki sem jafningja Microsoft eða IBM.“

Jack Ma við kauphöllina í New York í dag.
Jack Ma við kauphöllina í New York í dag. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK