„Vorum að draga úr áhættu“

Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Eru þau ákærð fyrir umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir lánanefnd bankans misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til veitingar ábyrgða. Bæði neituðu þau sök og margítrekaði Sigurjón í skýrslutöku fyrir dóminum í dag að málið væri byggt á misskilningi ákæruvaldsins. „Við vorum að draga úr áhættu bankans,“ sagði Sigurjón.

Ákæran snýr að tveimur brotum; Annars vegar að upphaflega veittri sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánasamningum tveggja aflandsfélaga skráðra á Panama, þ.e. Empennage og ZimhamCorp., við Kaupþing. Ábyrgðin vegna fyrrnefnds félags hljóðaði upp á 2,5 milljarða en sú síðari upp á 4,3 milljarða.

Telur ákæruvaldið að veiting ábyrgðanna, sem afgreiddar voru á milli funda lánanefndar, hafi brotið í bága við lánareglur bankans og segir í ákæru að engar undirliggjandi ábyrgðir hafi verið fyrir lánunum, en Sigríður Elín benti þó nokkrum sinnum á að lánin hafi verið tryggð með hlutabréfum í Landsbankanum og ítrekaði Sigurjón að hvorugt þeirra hafi haft nokkurn ábata sjálf af málinu.

Kerfið um kaupréttarsamningana löngu orðið til

Félögin tvö voru hluti af neti aflandsfélaga sem stofnuð voru um kauprétti starfsmanna Landsbankans og benti Sigurjón á að kerfinu hafi verið komið á árið 2000 til þess að standa vörð um kaupréttarsamningana og hefði bankinn sparað sér tugi milljarða á því í gegnum árin þar sem bankinn ætti aðgengi að bréfum á því verði sem samið var um gagnvart starfsmönnum þegar kaupréttur verður virkur, en ekki á hærra markaðsgengi.  Aðspurður hvers vegna félögin hefðu verið í Panama, segir hann einfaldlega að ódýrast hafi verið að hafa þau þar. „Bankinn leit svo á að verið væri að takmarka áhættuna,“ segir Sigurjón „en grunnákvörðunin um að hafa kerfið með þessum hætti var ekki mín ákvörðun. Það var ákveðið þegar bankinn var enn í ríkiseigu.“

Í ákæru segir að ábyrgðirnar hafi verið afgreiddar á milli funda lánanefndar Landsbankans og bókað um þá afgreiðslu í fundargerð lánanefndar 5. júlí 2006 og aftur 12. júlí 2006. Voru ákvörðunarblöð um það staðfest  af Sigríði og undirmanni hennar, Davíð Björnssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs 7. júlí 2006 og Sigurjóni 12. júlí 2006. 

Seinna brotið á að hafa átt sér stað um ári síðar eða þann 29. júní 2007. Þá samþykktu þau og undirrituðu fyrir hönd Landbankans að bankinn gengi aftur í ábyrgð fyrir Empennage Inc, nú fyrir 6,8 milljörðum og var þá ábyrgðin í heild komin í það félag. Í ákærunni kemur fram að Sigurjón og Elín hafi bundið Landsbankann við sjálfskuldarábyrgðina án þess að veiting hennar væri lögð fyrir lánanefnd og án þess að fyllt væri út og staðfest ákvörðunarblað um veitingu ábyrgðarinnar.

Muna ekki eftir fundum

Sigurjón segir að ábyrgðinni hafi upphaflega verið skipt á tvö félög til þess að takmarka áhættuna og til að auðveldara yrði að endurfjármagna lánið þegar að því kæmi. Þá taka bæði Sigurjón og Sigríður Elín fyrir að framlenging lánsins teldist nýtt lán sem hefði þurft að fylla út nýtt ákvörðunarblað um, staðfesta og leggja fyrir lánanefnd, líkt og fram kemur í ákæru, heldur hafi eingöngu verið um framlengingu á hinu fyrra að ræða. Engu skipti þó svo að ábyrgðin væri þá komin alfarið yfir í annað félagið þar sem um sambærileg systurfélög væri að ræða. Þá hafi bréfin í Landsbankanum legið undir sem ábyrgð fyrir láninu og Kaupþing þar með getað gengið að þeim. „Ef það hefði verið gert nýtt ákvörðunarblað hefði það verið samþykkt eins og allt annað,“ sagði Sigurjón.

Hvorugt þeirra kveðst muna nákvæmlega eftir fundunum þar sem langt sé um liðið. „Ég man ekkert eftir þessu nákvæmlega þótt ég þekki þetta núna þegar ég er búinn að lesa öll gögnin vegna þess að maður er ákærður,“ sagði Sigurjón fyrir héraðsdómi í dag.  „Ég er að reyna svara eftir bestu getu. Eins og þegar maður er í prófi og reynir að fá sem bestu einkunn.“

Ekki meiriháttar ákvörðun

Óumdeilt er að Sigurjón var í aðstöðu til þess að skuldbinda Landsbankann með þessum hætti í krafti stöðu sinnar og jafnframt að Sigríður Elín hafi sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og meðlimur lánanefndar mátt taka ákvörðun um útlán á milli funda lánanefndar en þau eru í ákæru sögð hafa notfært sér þessa aðstöðu þegar þau samþykktu sjálfskuldarábyrgð Landsbankans á lánveitingar til félaganna tveggja og síðar einungis Empennage Inc. Þrátt fyrir þetta eru þau þó sögð hafa skort heimild gagnvart Landbankanum til veitingu þeirra.

Í ákæru er bent á að ábyrgðirnar hljóti að teljast óvenjulegar og sérlega áhættusamar og því hafi ekki átt að samþykkja þær milli funda lánanefndar samkvæmt lánareglum. Sigurjón vildi þó meina að ákörðunin hefði ekki verið meiriháttar, og þó svo að þannig væri, hefði hann heimild til þess að samþykkja ábyrgðina í krafti stöðu sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK