Mjólkurbúið Kú kærir MS vegna rjómasölu

Mjólkursamsalan.
Mjólkursamsalan. mbl.is/Kristinn

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins Kú, hefur falið lögmanni fyrirtækisins að kæra Mjólkursamsöluna (MS) til Samkeppniseftirlitsins fyrir að selja Mjólkurbúinu rjóma á um 20% hærra verði en Mjólku og fyrirtækjum sem eru tengd MS.

Að mati forsvarsmanna Mjólkurbúsins er hér um að ræða samkeppnishamlandi mismunun sem er brot á 11. gr. Samkeppnislaga, að því er segir í tilkynningu frá Ólafi.

Bent er á, að Samkeppniseftirlitið hafi fyrr í þessari viku sektað Mjólkursamsöluna 370 milljónir króna vegna annars brots sem laut að verðlagningu á hrámjólk, sem MS seldi Mjólkurbúinu á 17% hærra verði en Mjólku og öðrum tengdum fyrirtækjum.

„Samkvæmt okkar upplýsingum hefur þessi mismunun í rjómasölu til okkar staðið í um það bil tvö ár og skekkt samkeppnisstöðu okkar gagnvart Mjólku og öðrum útvöldum vildarvinum MS,“ segir Ólafur í tilkynningunni.

Hann segir að í kjölfar úrskurðar Samkeppniseftirlitsins um brot MS fyrr í vikunni telji hann rétt að gera grein fyrir öðrum Samkeppnislagabrotum MS sem bitnað hafi á starfsemi Mjólkurbúsins undanfarin misseri.

„Brotið sem MS var sektað fyrir er því miður ekki einangrað dæmi um óeðlilega viðskiptahætti þessa einokunarrisa. Það er mikilvægt að löggjafinn dragi réttan lærdóm af þeim upplýsingum sem hafa komið fram um starfshætti MS að undanförnu og felli niður undanþágur MS frá Samkeppnislögum,“ segir Ólafur ennfremur.

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins Kú,
Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins Kú, mbl.is/Eyþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK