Komi til framkvæmda fyrir áramót

Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri.
Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Stefnt er að því að flestir geti séð um miðjan október hversu mikið höfuðstóll íbúðalána þeirra lækkar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri höfuðstólslækkunarinnar, í samtali við mbl.is. 

„Það er sú tímasetning sem við höfum verið að miða við ef allt gengur samkvæmt áætlun,“ segir hann. „Þá fer fram svokölluð birting og þá eiga allflestir að geta séð hvernig þetta verður.“ Hann segir að einhver þúsund tilfelli séu flóknari viðfangs vegna fjölskyldusögu og/eða viðskiptasögu. Fólk hafi kannski skilið, gengið í hjónaband, selt eignir o.s.frv. Slík mál gætu fyrir vikið tafist en ekki sé ljóst hvort það yrðu einhverjir dagar eða vikur.

„Við erum auðvitað að reyna af öllu afli að stuðla að því að hægt verði að birta sem mest,“ segir Tryggvi. Stefnt sé ennfremur að því að aðgerðirnar verði komnar endanlega til framkvæmda um áramótin og þá verði hægt að sjá lækkanirnar á greiðsluseðlum. Fólk hafi að hámarki þriggja mánaða umhugsunartíma frá birtingu til þess að samþykkja niðurstöðuna.

Ef fólk sættir sig ekki við niðurstöðuna getur það vísað henni til sérstakrar áfrýjunarnefndar að sögn Tryggva sem þegar hafi verið skipuð. Í hana er skipað af fjármálaráðherra og samkvæmt tilnefningu frá Hæstarétti. Fari einhver mál í þann farveg bætist við sá tími sem tekur nefndina að úrskurða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK