Viðamiklar umbætur á fjármálamarkaði

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman greinargerð um fyrirhugaðar umbætur á löggjöf á fjármálamarkaði á komandi löggjafarþingi. Fram kemur í tilkynningu að umbæturnar séu einar þær viðamestu sem ráðist hafi verið í á lagalegri umgjörð íslensks fjármálamarkaðar. Allir meginhlutar markaðarins verði undir í þeirri vinnu, þ.e. löggjöf um fjármálafyrirtæki, verðbréfamarkaði, vátryggingastarfsemi og greiðsluþjónustu, auk þess sem unnið sé að breytingum á ýmsum þáttum lífeyrissjóðalöggjafarinnar.

„Yfirstandandi umbótahrina hófst fyrir alvöru árið 2010 og enn munu líða nokkur ár þar til umbótunum verður að fullu lokið. Líklega verða stærstu skrefin þó tekin á yfirstandandi þingi þar sem fjármála- og efnahagsráðherra stefnir að því að leggja m.a. fram frumvörp um víðtækar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, frumvarp til laga um skila- og slitameðferð fjármálafyrirtækja, innstæðutryggingar, fagfjárfestasjóði, vátryggingaþjónustu og fasteignalán. Þessi greinargerð er sett fram með það að augnamiði að gefa yfirsýn yfir þá vinnu sem framundan er á yfirstandandi löggjafarþingi á þessu sviði, hvort sem er gagnvart einstaka þáttum fjármálaþjónustu eða markaðnum í heild.“

Fram kemur í greinargerðinni að þau frumvörp sem unnið sé að séu af tvennum meiði. Annars vegar sé áfram unnið að því að bæta úr þeim fjölmörgu ágöllum sem komið hafi í ljós við hrun fjármálakerfisins árið 2008. Hins vegar byggi frumvarpsvinnan á umfangsmikilli endurskoðun á evrópsku regluverki sem Íslandi sé skylt að innleiða á grundvelli EES-samningsins. Fjölmargar breytingar á evrópsku regluverki grundvallist síðan á alþjóðlegum samkomulögum, þá ekki síst á vegum Basel-nefndarinnar, og komi til framkvæmdar í flestum iðnríkjum.

„Þrátt fyrir bætt fjármálaeftirlit og mun stífari lagaumgjörð en fyrir hrun fjármálakerfisins er nauðsynlegt að hafa það hugfast að löggjöf á þessu sviði mun aldrei ná að koma í veg fyrir óstöðugleika á fjármálamarkaði – nema þá aðeins að fjármálaþjónustu verði sniðinn svo þröngur stakkur að hún geti með engu móti sinnt meginhlutverkum sínum. Mikilvægastu skrefin í þeim breytingum sem nú er unnið að snúa því að bættu og auknu eigin fé fjármálafyrirtækja, sem eykur viðnámsþrótt þeirra og tryggir að eigendur bankanna beri stærri hlut af kostnaðnum þegar illa fer.“

Greinargerðin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK