WOW bætir við áfangastöðum

Flugvél Wow air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Wow air á Keflavíkurflugvelli.

WOW air mun hefja flug til þriggja nýrra áfangastaða í Evrópu næsta vor auk þess að bæta við flugferðum til núverandi áfangastaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Gert er ráð fyrir 60% aukningu á farþegum milli ára frá 500 þúsund farþegum núna í ár í 800 þúsund farþega á næsta ári.

WOW air verður með sex flugvélar í flota sínum næsta sumar en var með fjórar flugvélar síðastliðið sumar. 

Áfangastaðirnir þrír sem bætast við á næsta ári eru Dublin, Róm og Billund.

Flogið verður til Dublin þrisvar sinnum í viku frá og með 2. júní og verður borgin heilsársáfangastaður. Flogið verður á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum.

Róm mun bætast við flugáætlun frá og með 1. júlí og flogið verður í tvo mánuði, júlí og ágúst einu sinnu í viku á föstudögum.

Frá 12. júní mun vera flogið til Billund í Danmörku á mánudögum og frá Billund á föstudögum.

Jafnframt verður aukning á flugum til  Amsterdam úr þremur flugum á viku upp í fjögur flug á viku. Frá og með næsta vori mun Amsterdam verða heilsársáfangastaður.

Mikil aukning verður á flugum til núverandi áfangastaða WOW air. Aukning verður á flugum til Alicante, Barcelona og Mílanó. Jafnframt verður aukning á heilsársáfangastöðum WOW air eins og til Parísar, Berlínar og Kaupmannahafnar.

Hætt verður við flug til Zurich og flugum til Stuttgart og Düsseldorf verður fækkað um eitt á viku. 

 „Nýliðið sumar gekk mjög vel hjá WOW air. Heildartekjur, sætanýting og afkoma var mjög góð.  Jafnframt erum við mjög stolt af stundvísistölum okkar sem voru frábærar sérstaklega með tilliti til þess að þetta var fyrsta sumarið þar sem við vorum að fljúga á eigin flugrekstrarleyfi.  Við erum þakklát fyrir hversu vel okkur hefur verið tekið bæði hér innanlands og erlendis.  Bókunarstaðan fram á veginn hefur aldrei verið betri og því munum við halda áfram að vaxa til að anna aukinni eftirspurn auk þess að bæta við nýjum spennandi áfangastöðum“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air í tilkynningu frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK