RÚV í greiðsluvanda

Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Erfið fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins varð til þess að ekki náðist greiða 190 milljón króna afborgun af skuldabréfi sem var á gjalddaga þann 1. október. Skuldabréfið er í eigu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga RÚV. Samkomulag hefur náðst á milli RÚV og eiganda skuldabréfsins um frest á greiðslu gjalddaga til áramóta.

Í tilkynningu frá kauphöllinni í dag kemur fram að athugungarmerking hafi verið sett á skuldabréf útgefin af Ríkisútvarpinu ohf. vegna þessa. Er það gert á grundvelli ákvæðis í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga á NASDAQ OMX Iceland og þá meðal annars ef uppi er umtalsverð óvissa um fjárhagslega stöðu félagsins. „Markmiðið með athugunarlista er að gefa merki til markaðarins um að sérstakar aðstæður séu hjá félaginu eða hlutabréfum þess sem fjárfestar ættu að gefa gaum,“ segir í reglunum.

Í úttekt sem gerð var á fjárhagsstöðu RÚV í mars sl. kom fram að félagið væri yfirskuldsett og skapaði ekki nægt sjóðsstreymi til að standa undir greiðslum afborgana og vaxtagreiðslna. Var því sagt að nauðsynlegt væri fyrir Ríkisútvarpið að minnka skuldir og auka veltufé til þess að tryggja rekstrarhæfi félagsins.

Niðurskurðurinn nægir ekki

Í tilkynningu frá RÚV segir að niðurskurðaraðgerðir síðasta árs hafi ekki dugað til að jafnvægi næðist í rekstrinum. Þegar litið væri bæði til þeirra aðgerða auk þeirra hagræðingaraðgerða sem nýja framkvæmdastjórnin hefur gripið til væri ljóst að meira þyrfti að koma til svo að núverandi tekjur standi undir starfseminni. 

„Það er ljóst að við erum ekki að enn laus við þann fortíðarvanda sem RÚV hefur lengi glímt við. Sjálfstæð fjárhagsleg úttekt staðfestir að skuldsetning RÚV er of mikil og það eru vonbrigði að sjá að rekstur RÚV var ekki kominn í jafnvægi eftir niðurskurðaraðgerðri fyrri
framkvæmdastjórnar,“ er hagt eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni, í tilkynningu félagsins.

Vinni sameiginlega að treystum grundvelli

Þá bendir hann á að nú liggi fyrir nokkuð skýr mynd af stöðu RÚV. „Ég bind vonir við að menn vinni sameiginlega að því að treysta grundvöll RÚV og þannig skapa viðundandi aðstæður fyrir Ríkisútvarpið til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem af því er vænst í lögum – og ekki síður af þjóðinni,“ segir hann. „Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta lýðræðis- og menningarstofnun þjóðarinnar og við viljum tryggja að það standi undir nafni sem útvarp allra landsmanna.“

Stórskuldugt vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga

Ingvi Hrafn Óskarsson, stjórnarformaður RÚV segir umfang þess vanda sem safnast hafi upp á mörgum árum vera slíkan að fleira en niðurskurðar- og hagræðingaraðgerðir síðustu ára þurfi að koma til. „Er því nauðsynlegt er að ræða fjárhagsgrundvöll félagsins í samhengi við margbrotin lögboðin verkefni, og hafa stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins átt í viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið að undanförnu þar sem staða Ríkisútvarpsins hefur verið kynnt. Eins og kemur fram í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins til skoðunar og væntum við þess að niðurstöður liggi fyrir fljótlega,“ segir hann.

Stærsti hluti skulda RÚV er vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga félagsins, sem nýtt hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins yfirtók, en auk þess umtalsverð lánsfjármögnun sem vaxið hefur á síðustu árum.

Magnús Geir, útvarpsstjóri.
Magnús Geir, útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK