Fyrsta handverkssláturhús landsins

Sauðfé Seglbúða á leið í réttir
Sauðfé Seglbúða á leið í réttir Mynd af Facebook síðu Seglbúða

Starfsemi verður hafin í svokölluðu handverkssláturhúsi í Seglbúðum á Kirkjubæjarklaustri á mánudag. Sláturhúsið er það fyrsta sinnar tegundar á landinu og eiga ný störf í héraði, hámarks nýting afurða og lágmarks kolefnisfótspor við framleiðslu á afurðum að einkenna framleiðsluna.

Hjónin Þórunn Júlíusdóttir og Erlendur Björnsson standa að rekstrinum og verða nokkrir menn úr sveitinni í slátrun og úrbeiningu að sögn Þórunnar. „Við höfum lagt áherslu á að vera ekki að keyra gripina langa vegalengd til slátrunar,“ segir Þórunn og bendir á að síðan sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri var lokað fyrir áratug síðan hefur þurft að keyra sláturgripi rúma tvö hundruð kílómetra, annaðhvort á Selfoss eða til Hafnar. „Við mynduðum lítinn klasa sem heitir sjálfbær sauðfjárrækt í Skaftárhreppi en það gengur út á að þau lömb sem fæðast í Skaftárhreppi ganga á fjöllunum þar, eru leidd til slátrunar þar og að lokum borin á borð á veitingastöðum þar,“ segir hún.

Minna stress fyrir sauðféð

Stefnt er að því að slátra um 45 sauðfjárgripum á sólarhring en aðeins þrisvar í viku. Þannig verður kjötinu leyft að hanga lengur en í stóru sláturhúsunum og stuðlar það að meyrnun kjötsins. 

Spurð um aðbúnað dýranna segir hún hugað að velferð þeirra að því leyti að aksturinn sé minni og stressið verði þar með minna fyrir þau. Þá sé einnig minni hávaði í smærri sláturhúsum.

Þórunn segir það hafa verið langt og strangt ferli að koma sláturhúsinu á koppinn þar sem regluverkið sé fyrst og fremst sniðið að stærri sláturhúsum. Þá hafi þetta verið mjög kostnaðarsamt en hjónin hafi fengið styrki bæði frá Samtökum sunnlenskra sveitafélaga og Bændasamtökum Íslands. Þá lagði eignarhaldsfélag Suðurlands hlutafé í félagið.

Í fyrstu verður einungis hægt að nálgast kjöt sláturhússins á svæðinu þar í kring en stefnt er að því að hefja sölu á vefsíðu fyrirtækisins þar sem íbúar á öðrum svæðum landsins geta pantað það heim að dyrum. Þá segir Þórunn að hugmyndir séu uppi um að hefja stórgripaslátrun í haust.

Seglbúðir
Seglbúðir Mynd af Facebook síðu Seglbúða
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK