Á náttfötum í norðurljósaferðir

Erlendir ferðamenn hafa komið til landsins í stórum stíl yfir …
Erlendir ferðamenn hafa komið til landsins í stórum stíl yfir veturinn til að sjá norðurljósin. mbl.is/Árni Sæberg

Vel virðist horfa með bókanir og áhuga erlendra ferðamanna á norðurljósaferðum hér á landi í vetur. Gosið í Holuhrauni hefur kallað á einhverjar afbókanir eða fyrirspurnir ferðamanna en fleiri hafa hins vegar sýnt áhuga á að sjá gosið berum augum. Mikil ásókn er því í flugferðir yfir eldgosið norðan Vatnajökuls.

Friðrik Pálsson á Hótel Rangá, sem gerir sérstaklega út á að sýna ferðamönnum norðurljósin, segir veturinn líta mjög vel út.

„Við höfðum áhyggjur af því að umfjöllun í erlendum fjölmiðlum yrði ekki eins mikil og hún hefur verið. Hún er eitthvað minni en við tókum okkur til og reyndum að bæta um betur. Við settum upp stjörnuskoðunarhús og höfum auglýst grimmt hjá okkar viðskiptavinum að þetta sé hrein viðbót við norðurljósaferðir. Hvort sem það er því að þakka eða ekki, þá er bókunin í vetur á við það sem var í fyrra,“ segir Friðrik.

Hann segir vertíðina þegar hafna. Skilyrði til norðurljósaferða hafi verið ágæt, þrátt fyrir rysjótta tíð. Fyrstu ljósin hafi sést 15. ágúst en héðan í frá megi reikna með norðurljósum á himni allt fram í mars eða byrjun apríl.

„Gestirnir sem til okkar koma hafa getað treyst því að við vekjum þá hvenær sem er að nóttu til ef norðurljósin sjást. Þetta gerðist síðast um miðja nótt fyrir stuttu og þá voru gestirnir komnir út á hlað örfáum mínútum síðar, sumir í náttfötum en aðrir fullklæddir,“ segir Friðrik.

Hann segir miklu skipta að ferðamenn sem til þeirra koma, sem líta á það sem meginmarkmið að fá að sjá norðurljósin, séu vel búnir undir það að sjá ljósin ekki.

„Þeir skilja að þetta er bara bónus og þiggja því mikla afþreyingu hjá okkar samstarfsaðilum. Öll sú afþreying, sem er í boði á sumrin, er einnig á veturna nema þá helst laxveiðin og golfið.“

Aðspurður segir Friðrik að eldgosið í Holuhrauni hafi vissulega haft einhver áhrif á eftirspurnina. Aðallega séu það ferðamenn frá Suðaustur-Asíu sem vilji síður taka mikla áhættu með löngu flugi til Íslands, ef ske kynni að frekari eldgos yrðu með tilheyrandi truflun á flugumferð. Hann segist hafa nýlega verið á ráðstefnu í S-Evrópu þar sem gosið í Holuhrauni kom til tals. „Hið merkilega var að nær allir báru þetta saman við gosið í Eyjafjallajökli 2010. Það virðist sem alþjóðafjölmiðlar hafi búið til þessi áhrif í fyrstu, þegar flugvandræðin 2010 voru rifjuð upp. Sem betur fer hefur það ekki gerst en ég býð ekki í það ef hlutirnir endurtaka sig,“ segir Friðrik.

Lúxusferðir á lengri leið

Guðrún Þórisdóttir, sölustjóri Iceland Excursions - Gray Line Iceland, segir eftirspurn eftir norðurljósaferðum mjög svipaða og í fyrra, sem var metár. Fyrirtækið er með daglega rútuferð að kvöldi til og eftir 15. október verða farnar tvær ferðir á dag. Bætt verður við sérstökum lúxusferðum, þar sem farnar verða lengri ferðir, allt upp undir átta tíma og boðið upp á mat og kaffi á leiðinni. Fullbúnar rútur verða notaðar í ferðirnar, með salerni og öllu tilheyrandi, og stoppað lengur á hverjum stað en í hefðbundnum ferðum.

Guðrún segist lítið finna fyrir áhrifum eldgossins á bókanir. Mest hafi verið spurt fyrstu dagana eftir að gosið hófst en nú berist varla fyrirspurnir eða afbókanir. „Við finnum mikinn áhuga ferðamanna, sem hingað eru komnir, á því hvernig þeir geti komist að eldstöðvunum og séð gosið með eigin augum,“ segir hún.

Norðurljós yfir Fljótum í Skagafirði og nyrsta hluta Tröllaskaga.
Norðurljós yfir Fljótum í Skagafirði og nyrsta hluta Tröllaskaga. mbl.is/Sigurður Ægisson
Ferðamenn að fylgjast með norðurljósadýrð.
Ferðamenn að fylgjast með norðurljósadýrð. Ljósmynd/Jakob Guðjohnsen leiðsögumaður
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK