Milljarða virði en engar tekjur

Snapchat nýtur mikilla vinsælda.
Snapchat nýtur mikilla vinsælda. AFP

Forritið Snapchat hefur verið töluvert á milli tannanna á fólki síðan tugum þúsunda mynda, sem einungis var ætlað að líta dagsins ljós í nokkrar sekúndur, var lekið á netið. Ljóst er að vinsældir þess eru gífurlegar en óljósara er þó hvers vegna fyrirtækið þykir svo verðmætt.

Fyrirtækið er í dag metið á um tíu milljarða Bandaríkjadala - þrátt fyrir ekkert reglulegt tekjuinnstreymi. Snapchat er ekki skráð á markað og hefur engar auglýsingatekjur.

Forstjóri þess og einn stofnanda, hinn 24 ára gamli Evan Spiegel, er ekki gjarn á að gefa of miklar upplýsingar um fjárhag og rekstrarmódel Snapchat en þó hefur hann sagt stærstan hluta notenda vera á aldrinum 18 til 25 ára. Þá er ljóst að í síðastliðnum maí horfðu notendur á rúman einn milljarð af „sögum“ (e. My Story) og sendu um 700 milljónir mynda eða myndskeiða á milli á degi hverjum. Er þetta gífurlegur vöxtur ef horft er á tölur frá því í október í fyrra þegar um 350 milljónir mynda fóru daglega á milli.

Stofnað af skólafélögum úr Stanford

Snapchat var stofnað í september 2011 af þremur nemendum í Stanford-háskóla í Kaliforníu, þeim Evan Spiegel, Reggie Brown og Bobby Murphy en með forritinu er hægt að taka mynd­ir og mynd­skeið á farsíma og senda til vina sem aðeins eiga að geta séð þær í nokkr­ar sek­únd­ur. Þá er einnig hægt að bæta sömu hlutum við í „söguna þína“ sem fylgjendur geta séð í tuttugu og fjórar klukkustundir.

Í vikunni var gagnagrunnur með tugþúsundum mynda frá Snapchat birtur á netinu en talið er að það séu sömu aðilar sem standa honum að baki og sem stálu og láku nektarmyndunum af nokkrum leikkonum í lok ágúst. Forsvarsmenn Snapchat hafa harðneit­að því að ör­yggis­kerfi apps­ins hafi brugðist og kenn­a þriðja aðila um, þ.e. þeim sem ginntu notendur á vefsíðuna Snapsa­ved.com þar sem lyk­il­orð og not­enda­nöfn þeirra voru vistuð og með þeim hætti kom­ist inn á netþjóna Snapchat og náð þaðan mynd­um.

Atvikið gæti reynst Snapchat erfiður biti þar sem fyrirtækið markaðssetur sig sérstaklega fyrir að myndirnar hverfi að áhorfi loknu. Eftir að notendanöfnum var lekið á netið í ágúst 2013 féllst Snapchat á greiðslu sektar til eftirlitsaðila í Bandaríkjunum en í ákvörðuninni sagði að gríðarlega mikilvægt væri fyrir fyrirtæki sem selur sérstaklega út á einkalífsvernd og öyggi standi við gefin loforð. Þá hlaut Snapchat lægstu einkunn í úttekt sem gerð var á öryggi netfyrirtækja í maí á þessu ári. Í skýrslunni segir að einkunnin sé sérstaklega varhugaverð í ljósi þess að viðkvæmar upplýsingar séu oft að fara þar manna á milli 

 Auglýsingar birtast bráðum á Snapchat

Snapchat hefur hingað til ekki haft neinar tekjur af auglýsingum og hafa því margir undrast áætlað verðmæti fyrirtækisins. Það virðist þó ætla að breytast á næstunni þar sem Spiegel tilkynnti á ráðstefnu á vegum Vanity Fair á dögunum að brátt myndu auglýsingar fara að birtast í sögu-hlutanum á Snapchat. Þá bætti hann við að notendur gætu ráðið því sjálfir hvort þeir horfi á auglýsingarnar eður ei. Ekki gaf hann þó upp hvenær þær taka að streyma inn. Ólíkt auglýsingunum á Facebook verður þeim ekki beint sérstaklega að hverjum notanda heldur verða þær hinar sömu fyrir alla.

Hafna öllum yfirtökuboðum

Á síðustu árum hafa yfirmenn Snapchat hafnað þó nokkrum himinháum yfirtökuboðum - þar á meðal frá Facebook, Alibaba og kínverska tæknifyrirtækinu Tencent. Boð Facebook hljóðaði á þrjá milljarða Bandaríkjadala en forsvarsmenn Snapchat sögðu það hafa verið of lágt.

Samkomulag Yahoo og Snapchat um tuttugu milljón dollara fjárfestingu er þó sagt vera á lokametrunum en ekki liggur fyrir hvort lekamál Snapchat muni hafa áhrif á það. Yahoo græddi nýlega töluvert á fjárfestingu fyrirtækisins í kínverska netrisanum Alibaba sem stóð fyrir stærsta hlutabréfaútboði sögunnar í síðasta mánuði en einn stofnanda Yahoo keypti 40 prósent hlut í Alibaba á árinu 2005 fyrir um einn milljarð dollara. Talið er að hluturinn sé um níu milljarða dollara virði í dag eftir útboðið og að Yahoo sé nú á höttunum eftir næstu gullgæs.

Frétt mbl: Svikahrappar að baki snapchat-stuldi

Frétt mbl: 100 þúsund snapchat myndum lekið

Evan Spiegel, hinn 24 ára gamli forstjóri Snapchat.
Evan Spiegel, hinn 24 ára gamli forstjóri Snapchat. Mynd af Wikipedia
Auglýsingar munu bráðum taka að birtast á Snapchat.
Auglýsingar munu bráðum taka að birtast á Snapchat. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK