Netflix í viðræðum við Senu

Netflix
Netflix AFP

Netflix á Íslandi yrði ekki það sama og bandaríska Netflix sem flestir Íslendingar eiga að venjast en úrvalið verður háð samningum afþreyingarrisans við hvern myndrétthafa fyrir sig. Framkvæmdastjóri Senu staðfestir að Netflix hafi haft samband og sýnt áhuga á því að kaupa af þeim efni.

Fréttavefurinn Nútíminn greindi fyrst frá þreifingum Netflix hér á landi. En þegar Netflix tekur til sýningar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti þarf fyrirtækið að semja við myndrétthafa á hverju landsvæði fyrir sig. Ef hins vegar efnið er keypt beint af framleiðanda hefur oftast verið samið um rétt til sýningar á ákveðnum landssvæðum og úrvalið sem hér yrði í boði myndi velta á þeim samningum. Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs, bendir þó á að samningarnir séu oft stórir og miklir og kveði þá á um sýningarrétt í allri Evrópu eða Bandaríkjunum.

Fagna löglegu Netflix

„Þeir eru að biðja um efni sem við eigum rétt á fyrir þetta landsvæði,“ segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu og staðfestir að Netflix hafi haft samband fyrir nokkrum vikum síðan þótt ekki sé vitað hvenær þjónustan verði opnuð á Íslandi né heldur sé það algjörlega öruggt. „Þeir vilja gera við okkur samninga um sýningar á efni og við hljótum að fagna því að Netflix vilji koma til landsins á löglegan hátt og sé ekki hérna í gegnum einhverjar hjáleiðir,“ segir Björn.

Sena hefur tryggt sér réttinn á töluverði safni erlendra og íslenskra kvikmynda og bendir Björn því á að ganga þyrfti til samninga eigi úrvalið hjá Netflix á Íslandi að vera fjölbreytt. Hann segir að ekki hafi verið spurt sérstaklega um íslenskar kvikmyndir en Netflix viti þó að Sena sjái um ákveðið magn íslenskra kvikmynda. „Það er eitthvað sem við búumst við að komi upp ef þessar umleitanir halda áfram,“segir hann.

Úrvalið mismunandi eftir löndum

Fleiri tæknileg atriði gætu komið upp við komu Netflix. Íslenskar sjónvarpsstöðvar gætu þegar hafa tryggt sér sýningarrétt á sjónvarpsseríum og þyrfti Netflix þá annað hvort að bíða þar til sýningu er lokið áður en serían er sett þar inn eða semja við sjónvarpsstöðina. 

Hörður Ágústsson, eigandi Maclands, bendir á að úrvalið í Skandinavíu sé mun minna en í Bandaríkjunum og segir að margir kjósi að nota áfram Bandarísku útgáfuna, þó svo að veitan hefji starfsemi í viðkomandi landi. Víða hafa þá leiðbeiningar verið birtar á netinu þar sem til dæmis Norðmenn eða Bretar leitast eftir að komast fram hjá þeirra eigin útgáfu - í þá Bandarísku.

Ýta íslenskri framleiðslu til hliðar

Guðrún bendir á að engin löggjöf um svokallaðan menningarkvóta sé á Íslandi líkt í sumum öðrum Evrópulöndum þar sem bjóða þarf upp á ákveðið magn af innlendu efni á móti því erlenda en bætir þó við að hingað til hafi Netflix haft þá stefnu að bjóða einnig upp á innlent efni.

Netflix er staðsett í Lúxemborg og því ekki undir kvöðum um að talsetja íslenskt efni. Guðrún bendir einnig á að ekki sé líklegt að fyrirtækið muni standa undir íslenskri framleiðslu. „Við verðum kannski að horfa á þetta í aðeins víðara samhengi. Ef erlendar veitur fara að koma mikið hingað inn gætu þær að einhverju leyti ýtt framleiðslu íslensks efnis til hliðar, sem auðvitað gæti haft ákveðin áhrif í þessum geira, bæði hjá kvikmyndagerðarmönnum, hljóðmönnum og öðrum,“ segir hún en bætir þó við að hún fagni því ef Netflix verður hér á landi með löglegum hætti.

Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu.
Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu. Eva Björk Ægisdóttir
Höfuðstöðvar Netflix.
Höfuðstöðvar Netflix. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK