Íslenskt vatn til sölu í Taívan

Icelandic Water Holdings hf, framleiðendur Icelandic Glacial-vatnsins, og dreifingarfyrirtækið Shiang Yang Trade Co. Ltd frá Taívan hafa gert með sér samning um dreifingu á Icelandic Glacial í Taívan.

„Okkur er mikil ánægja að tilkynna að Shiang Yang Trade Co. Ltd er nýr dreifingaraðili okkar í Taiwan“ er haft eftir Jóni Ólafssyni, stjórnarformanni og stofnanda Icelandic Water Holdings hf, í fréttatilkynningu. Fyrirtækið hefur að sögn Jóns áratuga reynslu í sölu drykkjavara frá Evrópu og býr yfir öflugu dreifikerfi í Taívan. „Við höfum trú á samstarfinu og vonum að það eigi eftir að efla hag beggja. Við erum stolt að geta boðið upp á Icelandic Glacial í þessu fallega landi.“

Icelandic Glacial-vatninu er tappað á flöskur úr lind fyrirtækisins í landi Hlíðarenda í Ölfusi og þaðan dreift víða um heim.

Icelandic Glacial, er selt á 19 mörkuðum víða um heiminn. Auk Taiwan er Icelandic Glacial til sölu í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Kalíníngrad, Úkraínu, Kína, Taílandi, Suður-Kóreu, Singapore, Macau, Perú og á Íslandi.

Jafnframt notar franska snyrti- og tískuvörufyrirtækið Christian Dior vatnið við framleiðslu á kreminu Dior Snow. Fyrirtækið var stofnað árið 2004 og eru Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson stærstu hluthafar Icelandic Water Holdings ásamt bandaríska drykkjavöruframleiðandanum Anheuser Busch.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK