Rómantísk goðsögn fallin frá

Amal Alamuddin mannréttindalögfræðingur giftist George Clooney á dögunum í Oscar …
Amal Alamuddin mannréttindalögfræðingur giftist George Clooney á dögunum í Oscar de la Renta. mbl.is/AFP

Oscar De La Renta, einn eftirsóttasti hönnuður heims, lést í gær 82 ára að aldri. Hann er þekktur fyrir kvenlega og rómantíska hönnun og ljóst er að hann skilur eftir sig mikla og merka arfleifð í tískuheiminum. 

„Aldrei rugla saman því sem gerist á tískupöllunum við tísku,“ sagði hann einu sinni. „Tískupallurinn er sýning. Þetta verður bara tíska þegar kvenmaður fer í fötin. Að vera vel til fara hefur ekki mikið með góð föt að gera. Þetta er bara spurning um jafnvægi og skynsemi,“ sagði hann.

Þú fæðist og deyrð

Oscar hefur barist við krabbamein frá árinu 2006 en dánarorsökin hefur þó enn ekki verið gefin upp. Í New York Times var þó fullyrt í dag að hann hafi látist af völdum fylgikvilla krabbameinsins.

Hann lést umkringdur fjölskyldu á heimili sínu í Connecticut í Bandaríkjunum sínu en í handskrifaðri yfirlýsingu frá stjúpdóttur hans og eiginmanni hennar sagði að þrátt fyrir að erfitt væri að hugsa sér lífið án hans yrði verkum hans haldið á lofti og rekstrinum gangandi. „Við munum gera hann stoltan,“ segir þar.

De La Renta varð ekki tíðrætt um veikindin en talaði þó um þau einu ári eftir að hann var greindur þar sem hann sagðist vera laus við meinið. „Já, ég var með krabbamein. Akkúrat núna er ég laus við það,“ sagði hann. „Það eina sem er fullvíst í lífinu er að þú fæðist og þú deyrð. Við höldum alltaf að við lifum að eilífu en tökumst ekki á við það að við munum deyja. Þegar þú færð aðvörun sem þessa lærirðu að meta hvern einasta dag,“ sagði hann. 

Fyrsta alvöru hönnunin á forsíðuna

Hann fæddist í Dómíníska lýðveldinu árið 1932 og er kominn af tiltölulega ríkum ættum. „Ég fékk flest það sem ég bað um,“ sagði hann. Ári eftir að móðir hans lést við þegar hann var á nítjánda ári fluttist hann til Spánar þar sem hann lagði stund á listmálun við San Fernando háskólann í Madríd. Hann smitaðist hins vegar snemma af tískuveirunni og fór að teikna upp föt fyrir dagblöð og ýmis tískuhús. Teikningarnar vöktu athygli Francescu Lodge, sendiherrafrúr Bandaríkjanna á Spáni, sem bað hann um að hanna kjól á dóttur sína. Skömmu síðar birtist kjóllinn á forsíðu Life tímaritsins.

Lærisveinn Balenciaga

De La Renta varð fljótlega eftirsóttur meðal stærstu tískuhúsanna á Spáni sem vildu fá hann til að teikna upp flíkur fyrir sig. Þá tók Cristóbal Balenciaga, stofnandi Balenciaga tískuhússins, hann að sér og hefur De La Renta ávallt minnst hans sem lærimeistara síns. Síðar fékk hann vinnu hjá franska tískuhúsinu Lanvin og flutti til Parísar.

Árið 1963 flutti Oscar til New York þar sem hann fór að vinna fyrir bandaríska tískuhúsið Elizabeth Arden. Árið 1965 fylgdi hann ráðum þáverandi ritstýru Vogue í Bandaríkjunum, Diönu Vreeland, og hætti þar störfum en fór að vinna fyrir Jane Derby og gaf í kjölfarið út sína fyrstu línu. Síðan hefur hann meðal annars starfað fyrir tískuhúsin Dior og Arden og á ár­un­um 1993 til 2002 var hann yfirhönnuður Balmain.

Stjúpbörnin fylgdu honum

Oscar kvæntist tvisvar. Fyrsta hjónabandið var með hinni frönsku Françoise de Langlade, sem var aðstoðarritstjóri franska Vogue tímaritsins. Hún lést hins vegar úr krabbameini árið 1983. Árið 1989 gekk hann í hjónaband með Anette Engelhard og voru þau gift fram til hins síðasta. Hann á stjúpbörn úr báðum hjónaböndum og eru bæði stjúpdóttir hans Eliza og eiginmaður hennar Alex háttsett innan De La Renta tískuhússins.

Vinsæll hjá forsetafrúum

Mörg þekktustu andlit heims hafa klæðst hönnun De La Renta - Hollywood stjörnur, kóngafólk, forsetafrúr. Ein þeirra sem kom hönnun hans á kortið er fyrrum forsetafrúin Jacqueline Kennedy, en hver einasta sem á eftir henni hefur komið hefur klæðst hönnun hans á einhverjum tímapunkti.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið dag eru fyrrum forsetahjónin Bill og Hillary Clinton en Hillary klæddist meðal annars kjól eftir hann á dansleiknum um kvöldið þegar Bill sór embættiseiðinn í annað skipti.  Sögðust þau í yfirlýsingu vera sorgmædd vegna fráfalls kærs vinar. „Einstakir hæfileikar og stórkostlegur smekkur hans lyftu bandarískri hönnun upp á hærra plan og hlýju hans og vináttu verður sárlega saknað,“ sögðu þau. 

Meðal annarra unnenda sem hafa lagt orð í belg er önnur fyrrverandi forsetafrú, Laura Bush. Sagðist hún ásamt dætrum sínum eiga margar góðar minningar að Oscari, sem meðal annars hannað brúðarkjólinn á Jennu, dóttur hennar og George W. Bush. 

Del La Renta var þó stundum gagnrýndur fyrir það að hönnun hans væri full íburðarmikil og hlaut hann einnig skammir í hattinn þegar hann benti á feilspor Michelle Obama, forsetafrúar Bandaríkjanna eftir að hún mætti í formlega heimsókn til Elísabetar Englandsdrottningar í J. Crew peysu. „Þú mætir ekki í Buckingham höll í peysu,“ sagði hann.

Hlýr herramaður

Meðal nýjustu kjóla De La Renta sem vakið hafa mikla athygli var brúðarkjóll Amal Alamuddin, mannréttindalögfræðingsins sem gekk að eiga George Clooney á dögunum. Í viðtali við Vogue sagði hún að þau hjónin hefðu viljað rómantískt og glæsilegt brúðkaup og enginn hefði verið betur til þess fallinn að fanga þann anda en De La Renta. „Að hitta hann gerði hönnunarferlið ennþá meira töfrandi þar sem hann er svo hlýr og þvílíkur herramaður,“ sagði hún.

Frétt mbl.is: Oscar De La Renta látinn

Frétt Smartlands: Stjörnunar elskuðu kjólana hans

Oscar de la Renta er látinn 82 ára að aldri.
Oscar de la Renta er látinn 82 ára að aldri. AFP
Hönnun De La Renta sem birtist á forsíðu Time.
Hönnun De La Renta sem birtist á forsíðu Time. Mynd af Wikipedia
Beyoncé klæddist Oscar de la Renta í Vogue 2014.
Beyoncé klæddist Oscar de la Renta í Vogue 2014.
Taylor Swift í Oscar de la Renta á MET Gala …
Taylor Swift í Oscar de la Renta á MET Gala 2014. mbl.is/AFP
Penelope Cruz í kjól eftir De La Renta.
Penelope Cruz í kjól eftir De La Renta. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK