Stofnuðu Samtök atvinnurekenda

Ekki er ólíklegt að SASV láti samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum …
Ekki er ólíklegt að SASV láti samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum til sín taka, en hinn Baldur Sæferða, sem liggur nú við bryggju í Reykjavíkurhöfn og býður þess að verða tekinn í slipp til málunar, er mikilvæg lífæð samfélaganna vestra. Mynd/SASV

Í byrjun mánaðarins kom saman á Tálknafirði hópur fulltrúa helstu atvinnugreina á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem stofnað var til heildarsamtaka atvinnurekenda í Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslum, eða allt frá Bíldudal til Reykhóla. Á fundinn mættu m.a. fulltrúar frá ferðaþjónustu, iðnfyrirtækjum, verslun og þjónustu, fiskeldi, fiskvinnslu og útgerð.

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum, eða SASV, hafa að meginmarkmiði að stuðla að vexti og viðgangi samfélaganna í Barðastrandarsýslum með það fyrir augum að gera byggðirnar enn ákjósanlegri til atvinnurekstrar og búsetu, ekki síst fyrir fjölskyldufólk. Hyggjast samtökin vinna að þeim markmiðum með því m.a. að stuðla að aukinni samkeppnishæfni atvinnufyrirtækjanna og stuðla eða standa að verkefnum sem eflt geta nýsköpun og samvinnu fyrirtækja sem horft geta til heilla fyrir samfélögin í heild.

Í nýkjörinni aðalstjórn SASV eru Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, formaður og talsmaður, Björgvin Sigurjónsson, framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Eikar á Tálknafirði, Einar Kristinn Jónsson framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Westfjords Adventures á Patreksfirði, Höskuldur Steinarsson, framleiðslustjóri Fjarðalax á Bíldudal, Haukur Már Sigurðarson, kaupmaður í Fjölvali á Patreksfirði, Sigríður I. Birgisdóttir útibússtjóri Landsbankans á Patreksfirði, og Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði.

Í varastjórn voru kjörin Barði Sæmundsson, framkvæmdastjóri Vélsmiðjunnar Loga á Patreksfirði, Bergrún Halldórsdóttir gjaldkeri hjá Sýslumannsembættinu á Patreksfirði, Bjarni Einarsson, veitingamaður í Hópinu á Tálknafirði, og Magnús Guðjónsson skipstjóri á Tálknafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK