Engin skata á Hótel Borg í ár

Skötuhlaðborð hefur verið haldið á Borginni í fjöldamörg ár. Þessi …
Skötuhlaðborð hefur verið haldið á Borginni í fjöldamörg ár. Þessi mynd var tekin á Borginni á Þorláksmessu á tíunda áratugnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki verður boðið upp á jóla- og skötuhlaðborð á veitingastað Hótel Borgar þessi jólin. Hlaðborðin hafa verið haldin á staðnum í fjölda ára og verið gríðarlega vinsæl. Að sögn Þóru Sigurðardóttur, eiganda Borg Restaurant, er ekki hægt að halda hlaðborðin í ár vegna framkvæmda í húsinu.

„Gamli Skuggabarinn og megnið af eldhúsinu okkar var rifið og svo verður allt endurbyggt. Það var líka grafinn kjallari þannig að það verður opnuð heilsulind þar. Þetta verður alveg rosalega fínt,“ segir Þóra í samtali við mbl.is.

Þegar að framkvæmdum lýkur eftir áramót mun Skuggabarinn opna í nýrri mynd. „Hann verður svipaður í laginu en verður tekinn á sama stig og veitingastaðurinn og Gyllti Salurinn þegar það kemur að útliti og hönnun. Bætt verður við lofthæð og settur marmari. Hann verður allt annar,“ segir Þóra. 

Jafnframt verða byggðar fjórar hæðir ofan á hótelið sem stækkar þá úr 56 herbergja hóteli í 104 herbergja. Stækkunin er því töluverð.

Betri skata og loftræsting á næsta ári

„Við bara grátum það að engin jóla- eða skötuhlaðborð verða haldin hjá okkur í ár. Þetta er engin óskastaða en framkvæmdirnar eru búnar að standa yfir meirihlutann af árinu. Við vitum samt að þetta verður alveg rosalega fínt þegar þetta verður tilbúið, það kemur eitthvað gott út úr þessu,“ segir Þóra og bætir við að þegar Borg Restaurant opni aftur verði Hótel Borg með flottasta veislurýmið í borginni og líklegast besta eldhúsið.

Skötuhlaðborðin hafa verið haldin á Hótel Borg á Þorláksmessu í mörg ár og hefur aðsóknin alltaf verið mikil. Að sögn Þóru rignir inn símtölum frá fólki sem vill panta borð á Þorláksmessu. 

„Við höfum náttúrulega verið að taka fleiri þúsundir hérna í jólahlaðborð og skötuhlaðborð sem hafa alltaf tekist alveg rosalega vel. Skatan alltaf löngu orðin bókuð á þessum tíma og það sitja margir eftir með sárt ennið, því miður. Við erum farin að spá að bjóða fólki bara heim til okkar, “ segir Þóra og hlær.

„Ég viðurkenni að þetta er alveg pínu glatað en ég get ég lofað fólki að skatan verði miklu betra á næsta ári og loftræstingin líka.“

Skötuhlaðborð hefur verið haldið á Borginni í fjöldamörg ár. Þessi …
Skötuhlaðborð hefur verið haldið á Borginni í fjöldamörg ár. Þessi mynd var tekin á Borginni á Þorláksmessu á tíunda áratugnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þóra Sigurðardóttir, eigandi Borg Restaurant.
Þóra Sigurðardóttir, eigandi Borg Restaurant. Árni Sæberg
Framkvæmdirnar við Hótel Borg í sumar. Þeim lýkur fljótlega eftir …
Framkvæmdirnar við Hótel Borg í sumar. Þeim lýkur fljótlega eftir áramót. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK