Átján starfsmönnum Arion sagt upp

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn

Átján starfsmönnum Arion banka var sagt upp störfum í dag en uppsagnirnar voru hluti af hagræðingaraðgerðum bankans að því er fram kemur í tilkynningu. Tveimur til viðbótar verður þá sagt upp þegar útibúi Arion banka á Hólmavík verður lokað þann 5. nóvember n.k. „Það er erfitt skref að þurfa að grípa til uppsagna en nauðsynlegt til að auka skilvirkni og hagkvæmni í grunnrekstri bankans,“ segir í tilkynningu.

Að sögn Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs Arion banka, vann starfsfólkið sem sagt var upp á viðskiptabankasviði og þá meðal annars í útibúum, höfuðstöðvum og þjónustuveri. Aðspurður segir hann ekki vera uppi áform um frekari uppsagnir af þessum toga. „Við erum að reyna að ná fram fækkun starfsfólks í gegnum starfsmannaveltu og áhersla verður ennþá lögð á að ná fram auknu hagræði,“ sagði hann í samtali við mbl.

Sextán útibúum lokað á sex árum

Í tilkynningu segir þá einnig að Arion banki hafi á undanförnum árum lagt mikla áherslu á hagræðingu í rekstri bankans. Mikilvægt sé að bæta afkomu reglulegrar starfsemi, meðal annars með því að draga úr kostnaði og styrkja þannig samkeppnishæfni bankans til framtíðar.

Í hagræðingarskyni hefur Arion banki á undanförnum árum meðal annars lokað sextán útibúum og afgreiðslum víðsvegar um landið og hefur starfsfólki bankans fækkað um 120 frá árslokum 2009 þrátt fyrir að starfsemi Verdis, Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Dróma hafi færst til bankans. „Hefur fækkun starfsfólks náðst fram að miklu leyti í gegnum hefðbundna starfsmannaveltu með þeim hætti að ekki hefur verið ráðið aftur í störf sem losna,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK