Félagið sprottið upp úr jarðvegi líftæknirannsókna

Kristinn Grétarsson forstjóri ORF líftækni
Kristinn Grétarsson forstjóri ORF líftækni Ómar Óskarsson

Á þrettán árum hefur fyrirtækið ORF Líftækni farið frá því að vera lítið nýsköpunarfyrirtæki þriggja vísindamanna í að vera leiðandi líftæknifyrirtæki sem selur hágæða húðvörur út um allan heim. Forstjóri félagsins og dótturfyrirtækisins Sif Cosmetics líkir ferðalaginu við ævintýri sem sé rétt að byrja.

„Þetta hefur verið ævintýralega skemmtileg vegferð og ótrúlega spennandi verkefni að takast á við,“ segir Kristinn Grétarsson, forstjóri ORF Líftækni og dótturfyrirtækisins Sif Cosmetics. Húðvörur frá félögunum, undir vörumerkinu BIOEFFECT, hafa á undanförnum árum farið sigurför um heiminn.

Þær eru seldar í 25 löndum í yfir 700 stórverslunum, snyrtivöruverslunum, læknastofum, heilsulindum, flugfélögum og lúxus lífsstílsverslunum á borð við Colette í París, KaDeWe í Berlín, Magasin du Nord í Kaupmannahöfn og Harvey Nichols í Hong Kong. Hér á landi eru húðvörur Sif Cosmetics seldar undir vörumerkinu EGF.

En hvernig hófst þetta ævintýri? „Félagið ORF Líftækni var stofnað árið 2001 af þremur vísindamönnum. Í dag starfa um 40 manns hjá félaginu og af þeim eru átta starfsmenn með doktorspróf. “ Kristinn segir þetta háa hlutfall sýna hversu öflugt vísinda- og rannsóknastarf fer fram hjá félaginu.

Hann skilgreinir félagið sem líftæknifyrirtæki sem einbeiti sér að því að þróa tækni til að erfðabreyta byggi og fá bygg til að framleiða frumuvaka, svo sem EGF-frumuvakann sem notaður er í EGF-húðdropana. „ORF Líftækni selur 23 frumuvaka undir vörumerkinu ISOkine. Þessir frumuvakar eru meðal annars notaðir í rannsóknir á stofnfrumum, á rannsóknarstofum, á háskólasjúkrahúsum eða í lyfjafyrirtækjum. Þetta er sá jarðvegur sem félagið er sprottið úr. Við erum ennþá að þróa, framleiða og selja þessa frumuvaka.“

Dótturfyrirtækið Sif Cosmetics var stofnað árið 2009 og EGF-húðdroparnir komu svo á markað í maí árið 2010. „Þá byrjaði ævintýrið upp á nýtt,“ segir Kristinn. „Droparnir náðu vinsældum mjög hratt og í dag notar fjórðungur íslenskra kvenna dropana okkar.“

Auglýsa ekki vörurnar en fá umfjöllun

„Hérna heima byrjaði þetta bara á því að við fórum að gefa prufur með EGF-húðdropunum. Umboðsaðili okkar í Danmörku byrjaði á því að gefa íslenskum konum vöruna til þess að prófa. Svo þegar árangurinn sást, dreifðist orðsporið mjög hratt út. Núna eru um 30.000 konur á Íslandi sem nota dropana okkar, og fjórði hluti kvenna yfir þrítugu. Það er engin tilviljun,“ bendir Kristinn á.

BIOEFFECT-vörurnar eru ekki auglýstar erlendis. Engu að síður hafa þær hlotið mikla umfjöllun í fjölmiðlum um allan heim. Kristinn áætlar að 500-700 greinar hafi verið birtar um vörurnar og félagið.

Greinarnar þjóni hlutverki auglýsinga en séu mun ódýrari fyrir fyrirtækið. „Blaðamenn prófa vörurnar okkar, fá að heyra um vísindin á bak við þær og skrifa svo um þær. Við höfum einnig verið í fjölmörgum sjónvarpsþáttum. Þetta er frábær leið til að fá umfjöllun um okkur. Sú sem við höfum fengið hefur verið alveg ótrúleg.“ Vísar Kristinn þannig til tímarita á borð við ELLE, Harper's Bazaar, Vogue, Marie Claire, Daily Mail og OK! Magazine. Hann sehir marga blaðamenn sem hafi prófað BIOEFFECT-vörurnar koma hingað til lands til að skoða 2.000 fermetra hátæknigróðurhús félagsins og kynna sér vísindin og söguna á bak við vörurnar. Nefnir hann sem dæmi að starfsmenn Sif hafi nýlega tekið á móti tólf manna hópi frá kínverskri sjónvarpsstöð sem hafi verið hér í viku til að taka upp sjónvarpsefni um BIOEFFECT og Ísland.

„Þessi jákvæða umfjöllun gerir það að verkum að vörurnar komast í réttar hendur, þannig að lykilfólk sem er leiðandi í umræðunni prófar vörurnar okkar og sannfærist. Ástæðan fyrir því að við komumst inn í Colette í París er sú að eigandi búðarinnar prófaði EGF-húðdropana. Vörurnar okkar verða seldar í nýju Sephora búðinni í Sydney því að verslunarstjórinn prófaði húðdropana okkar.“

Kristinn bendir á að stefna fyrirtækisins sé skýr. Um sé að ræða hágæðavöru og hlúa verði vel að vörumerkinu til að ná árangri. „Ef við setjum vöruna í hágæðaverslanir, tengjumst við lykilfólkinu á þeim markaði. Ef maður gætir þess að hlúa að vörunni á réttan hátt, kemur umfjöllunin af sjálfu sér og í réttum miðlum.“ Aðrir miðlar og verslanir fylgi í kjölfarið. „Allir eru tilbúnir að skrifa um vöruna eftir að Vogue er búið að skrifa um hana. Eins eru allir tilbúnir að taka hana inn eftir að Colette í París er búin að því.“

Þá sé góð auglýsing einnig fólgin í því að frægt fólk noti vörurnar. Meðal aðdáenda EGF-húðdropanna eru Uma Thurman, Kelly Preston og Marion Coutillard. „Marion skrifaði til að mynda persónulegt bréf til umboðsaðila okkar í Frakklandi og þakkaði fyrir sig.“

Markaðurinn gerir kröfu um sannanir

„Allir vilja viðhalda heilbrigðri húð, rétt eins og fólk vill viðhalda heilbrigðum líkama,“ segir Kristinn. „Við bjóðum upp á mjög góða og heilbrigða leið til að viðhalda heilbrigði húðarinnar og þar af leiðandi unglegri húð.“

Hann segir fólk byrja um þrítugt að kaupa vörur sem haldi húðinni ungri eða yngi hana. „Stór hluti vara á snyrtivöru- og húðvörumarkaði hefur einhverja skírskotun í yngingu. Ég giska á að 90% af kremum geri það.“

Þó svo að stór meirihluti krema vísi til yngingaráhrifa, virki aðeins lítill hluti þeirra í raun og veru. „Til eru vörur sem eiga ríkari rétt á því að vísa til yngingaráhrifa en aðrar og þær eru almennt seldar í dýrari verslunum, á áberandi stað. Þá er verslunarstjórinn búinn að tína út vörur í sérflokki, sem hann telur að séu virkari eða betri en aðrar.“

Að hans sögn eru BIOEFFECT-vörurnar í sérflokki, þar sem virkni þeirra er vísindalega sönnuð. Þeir sem fjalli um vörurnar vitni oft í óháðar rannsóknir um vörurnar. „Fólk er orðið upplýstara í dag og það gerir meiri kröfur til efna og vara. Ef fjöldi viðskiptavina og vísindalegar sannanir fyrir virkni fara saman, geta viðskiptavinir treyst því að það sem þeir telja sig upplifa, er rétt.“

Heilbrigð leið að náttúrulegri fegurð

„Fólk sem kaupir vörurnar okkar er að leita að heilbrigðri aðferð til að fá virkni í húðina. Vörurnar veita annan og betri árangur en skurðaðgerð eða bótox-sprautun, þar sem þetta er heilbrigð leið til að líta betur út. EGF-húðdroparnir hafa mjög heilbrigða virkni og þess vegna tala viðskiptavinir um að húðin geisli eða glói frekar en áður.“

Kristinn telur áberandi í umræðunni að lýtalæknar hafi ef til vill farið of langt. „Víða í fjölmiðlum sést fólk sem er að einhverju leyti orðið afskræmt í framan. Útlit þess er orðið of ýkt, bótoxað, strekkt, fyllt með fylliefnum og svo framvegis. Fólk er í ríkara mæli farið að spyrja sig hvort ekki sé til heilbrigðari leið sem skilar náttúrulegri fegurð hvers og eins.“

Hann telur BIOEFFECT svara spurningum þessa fólks. „Með því að þykkja húðina og auka þéttleika hennar, draga vörurnar úr hrukkum, auka útgeislun húðarinnar og gera hana áferðarfallegri. Þetta er sú fegurð sem allir vilja. Það er ótrúlega gefandi að heyra fólk lýsa upplifun sinni af vörunum okkar og virkninni.“

Að hans sögn er markhópurinn konur yfir þrítugu. „Það sem laðar fólk að vörunum, er að þær eru vísindalega þróaðar og virknin er vísindalega sönnuð.“

Kristinn segist sjálfur hafa prófað 30 daga húðkúrinn frá félaginu. „Ég ætlaði ekki að trúa niðurstöðunum. Ég sá sjáanlegar niðurstöður eftir mánuð en ég þorði ekki að segja neinum frá því. Ég kem jú úr mjög vísindalegum geira þar sem reynslusögur þykja ekki sönnun fyrir virkni. Það var ekki fyrr en ég sá niðurstöðurnar frá dr. Martinu Kerscher sem ég þorði að segja frá minni upplifun.“

Stefnt á að skila hagnaði á þessu ári

ORF hefur hingað til ekki skilað hagnaði en Kristinn greinir frá því að stefnt sé á að það breytist á þessu ári. „Við vinnum í því núna. Söluhæstu mánuðir ársins eru eftir. Við stefnum að því að skila hagnaði í ár en það er ekki endilega auðvelt.“

Hann segir suma markaði sem BIOEFFECT-vörurnar eru seldar á hafa farið illa út úr efnahagsástandinu. „Svo höfum við verið að taka til í umboðsmannakerfinu okkar en það setur auðvitað strik í reikninginn. Sumir umboðsmenn voru ekki að standa sig og ekki að vinna eftir okkar aðferðafræði og við sögðum þeim því upp. Það er eðlilegt í félagi sem er að byggja upp dreifikerfi,“ útskýrir Kristinn.

Dreifikerfi félagsins er í hraðri uppbyggingu og vinna 77 einstaklingar erlendis í fullu starfi sem dreifiaðilar fyrir BIOEFFECT vörurnar. Þeim mun fjölga, að sögn Kristins. „Meðal þeirra eru fyrrverandi markaðsstjóri La Prairie, fyrrverandi forstjóri Elizabeth Arden, fyrrverandi markaðsstjóri Clarins í Evrópu og þar fram eftir götunum. Þegar ég kom hingað inn varð ég gapandi hissa á að svona frambærilegir einstaklingar væru að selja fyrir okkur sem umboðsmenn. Þetta sýnir vel hversu flottar og góðar vörurnar eru og hvaða tækifæri felast í sölu og markaðssetningu á þeim.“

Vörurnar eru nýkomnar á markað í Kanada og þær koma á markað í Rússlandi í byrjun nóvember. Einnig standa yfir viðræður um útvíkkun starfseminnar í Suður-Kóreu. „Við horfum einnig til Noregs og Japans. Við gerum ekki ráð fyrir að fara inn á bandarískan markað í allra nánustu framtíð. Markaðurinn þar er mjög stór og að sama skapi erfiður. Það þarf mikla fjárfestingu og vinnu til að komast inn á bandarískan markað. Við höfum þó augun opin,“ útskýrir Kristinn.

Markmið rannsókna að skapa tekjur

Aðspurður um hvort megináhersla ORF Líftækni verða alltaf rannsóknir, svarar Kristinn: „Við horfum ekki á okkur sem rannsóknarfyrirtæki. Markmið allra okkar rannsókna og þróunarvinnu er að búa til vöru og skapa tekjur. Þróunarstarfið er mjög markvisst.“

Sif Cosmetics hafi verið stofnað til þess að framleiða og markaðssetja vörur undir merkinu BIOEFFECT og EGF. Hins vegar sé meiri áhersla á rannsóknir innan ORF, og starfsemi Sif byggist á þeim rannsóknum.

„Sif er ákaflega ungt félag og við erum rétt að byrja. Við erum ennþá að byggja upp dreifikerfið okkar og það er mikil vinna eftir þar og miklir möguleikar.“

Kristinn kveður félögin ORF og Sif stefna á að halda áfram á sömu braut, með frekari uppbyggingu dreifikerfisins. Hvorki standi til að hækka hlutafé á næstunni né fjölga hluthöfum en þeir eru um 90 talsins. „Félagið er vel fjármagnað eins og stendur.“

Styrkir vörumerkið að vera frá Íslandi

Allar vörur fyrirtækisins eru fullunnar á Íslandi. „Þegar við segjum „made in Iceland“, þá er varan búin til á Íslandi. Hún er ekki „made by Iceland“. Á þessum lúxus húðvörumarkaði skiptir uppruninn miklu máli. Það er bæði mikilvægt að hafa vöru með einstaka virkni og að hafa áhugaverða sögu að segja.“

Hluti af þeirri sögu sé að segja frá erfðatækni. „Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á tæknina í okkar markaðsstarfi. Við viljum kynna hana sem mest því við erum mjög stolt af henni. Þetta er vara sem virkar og við erum stolt af tækninni sem lætur hana virka.“

Hann segist ekki hafa orðið var við neikvæða umræðu um erfðabreytingar. „Fólk er orðið upplýstara en áður og undanfarin ár hefur átt sér stað mjög góð og upplýst umræða.“

Kristinn segir að viðskiptavinir séu tilbúnir að greiða meira fyrir vöru með sjö innihaldsefni frá Íslandi. Því fylgi ákveðin rómantík og traust. „Staðsetning fyrirtækisins og sagan styrkja vörumerkið okkar gríðarlega mikið.“

Þá segir Kristinn ekkert fararsnið á félaginu. „Við framleiðum EGF-efnið hér úr bygginu og höfum alltaf gert. Það er því gífurlega mikil þekking og kunnátta í höndum starfsfólks okkar, sem er erfitt að færa til útlanda. Við getum ekki bara pakkað saman, farið til útlanda og staðið okkur jafnvel á markaði.“

Framlag sjóðanna seint ofmetið

Kristinn bendir á að ORF eigi Tækniþróunarsjóði og öðrum sjóðum Rannís mjög mikið að þakka. „Ef ekki nyti við Tækniþróunarsjóðs myndum við ekki njóta þessa árangurs sem við gerum í dag. Ég get fullyrt að það sama gildir um mörg önnur félög á Íslandi í dag. Framlag Tækniþróunarsjóðs verður seint ofmetið. Hann skilar ekki aðeins betri félögum, heldur einnig auknum gjaldeyristekjum. Ávinningurinn af því er gífurlega mikill fyrir samfélagið. Peningarnir koma allir til baka og rúmlega það,“ segir Kristinn. Þá hafi endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði reynst félaginu vel.

Spennandi tækifæri í framtíðinni

Kristinn er spenntur fyrir framtíðinni. „Samfélagsmiðlar skipta sífellt meira máli og upplýsingaflæðið verður sífellt meira. Því tel ég að framtíð okkar sé mjög spennandi. Að vera með vöru sem virkar, veitir einstakt tækifæri í þessum geira til þess að skapa sér mjög stórt pláss á markaði fyrir viðskiptavini sem gera kröfur um vísindalega sannaða virkni.“

Ljóst er að ýmis tíðindi munu verða hjá ORF og Sif á næstu misserum. Áttunda BIOEFFECT-varan mun koma á markað í byrjun næsta árs. Um verður að ræða dagdropa sem eru hannaðir þannig að þeir henti vel til að nota undir farða.

Þá eru fjölmörg rannsóknarverkefni í gangi hjá ORF Líftækni, til dæmis tengd kampýlobakter í kjúklingum, sárameðferð á dýrum og bóluefni gegn sumarexemi í hestum.

ORF líftækni.
ORF líftækni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK