Straumur kaupir 20% hlut í MP banka

Nýir eigendur eignuðust meirihluta í Straumi sl. júlí.
Nýir eigendur eignuðust meirihluta í Straumi sl. júlí.

Straumur fjárfestingabanki hefur keypt tæplega 20% hlut í MP banka. Seljendur eru félögin Manastur Holding og Linley Limited sem eru í eigu breska fjárfestisins Joseph Lewis og Rowland fjölskyldunnar sem á meðal annars Banque Havilland í Lúxemborg. Gengið var frá kaupunum fyrir nokkrum dögum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Ljóst þykir að með kaupunum hyggst Straumur í framhaldinu gera tilraun til að hefja yfirtökuferli á MP banka. Líklegt er að á næstunni verði boðað til hluthafafundar og ný stjórn kosin í MP banka. Joseph Lewis og Rowland fjölskyldan eru í hópi fjögurra stærstu hluthafa bankans. Hefur hlutur þeirra í MP banka verið til sölu í talsverðan tíma en þeir urðu hluthafar í bankanum þegar nýr eigendahópur tók við rekstrinum vorið 2011.

Nýir eigendur komu að rekstri Straums undir lok júlímánaðar þegar hópur einkafjárfesta keypti 65% hlut í fjárfestingabankanum af eignaumsýslufélaginu ALMC. Var fjárfestahópurinn leiddur af viðskiptafélögunum Finni Reyr Stefánssyni og Tómasi Kristjánssyni, eigendum fjárfestingafélagsins Siglu. Finnur er nú stjórnarformaður Straums.

Viðræður runnu út í sandinn

Á meðal hluthafa í MP banka er fjárfestingafélagið Arkur ehf., sem er í eigu Steinunnar Jónsdóttur, eiginkonu Finns Reys og dóttir Jóns Helga Guðmundssonar í Byko, með 2,56% hlut. Eru þau Steinunn og Finnur Reyr ein eignamestu hjón landsins. Fjárfestingafélag þeirra Finns og Tómasar á einnig tæplega 1% hlut í MP banka.

Áform nýrra meirihlutaeigenda Straums hafa frá upphafi staðið til þess að sameinast MP banka. Þannig greindi Morgunblaðið frá því 10. júlí sl., skömmu áður en fjárfestahópurinn gekk formlega frá kaupum á meirihluta í Straumi, að þreifingar væru hafnar um mögulega sameiningu bankanna. Þær óformlegu viðræður, sen hófust að frumkvæði Straums fjárfestingabanka, sigldu hins vegar fljótlega í strand. Töldu hluthafar MP banka meðal annars að þær verðhugmyndir sem Straumur hafði um MP banka óásættanlegar, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Nánar verður fjallað um málið í ViðskiptaMogganum á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK