Greiði gjald fyrir forgang

Bókfært virði eigna föllnu bankanna nemur um 2.600 milljörðum.
Bókfært virði eigna föllnu bankanna nemur um 2.600 milljörðum. Samsett mynd/Eggert

Slitabú föllnu bankanna gætu þurft að greiða samtals mörg hundruð milljarða króna í sérstakan skatt til ríkisins vilji þau undanþágu frá fjármagnshöftum til að inna af hendi greiðslur úr landi til kröfuhafa.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að  gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi tillögum framkvæmdastjórnar stjórnvalda um afnám hafta að útgöngugjaldið verði 35%.

Fari slitabúin fram á að fá samþykktar undanþágubeiðnir frá höftum til greiðslu gjaldeyris til kröfuhafa, líkt og áformað er í tillögum þeirra að nauðasamningi, er talið eðlilegt að þau greiði fyrir slíkan forgang í formi skattlagningar.

Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hver skattprósentan verður – hún gæti orðið hærri en 35% – en ljóst má vera að slitabúin þyrftu að óbreyttu að greiða vel yfir 500 milljarða í skatt til ríkisins. Bókfært virði eigna slitabúa Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans (LBI) nam tæplega 2.600 milljörðum króna um mitt þetta ár. Erlendir aðilar eiga 94% allra krafna á hendur búunum.

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa ítrekað að mikilvægt sé að tryggja jafnræði við losun hafta. Útgöngugjaldið er því yfirlýsing af hálfu íslenskra stjórnvalda um að mögulegar greiðslur úr slitabúunum yfir landamæri verði meðhöndlaðar með sama hætti og gildir um aðra íslenska lögaðila. Skiptir þá engu máli hvort greiðslurnar eru framkvæmdar í krónum eða gjaldeyri enda eigi kröfuhafar aðeins kröfur í krónum á íslensk slitabú. 

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu fyrstu tillögur um losun hafta, sem gætu litið dagsins ljós á næstu vikum, lúta að aðgerðum til að taka á aflandskrónuvandanum og tilslökunum fyrir beinar erlendar fjárfestingar innlendra aðila úr landi og lengri tíma fjárfestingar í erlendum verðbréfum. Mun útgöngugjaldið einnig ná til aflandskróna eftir að þeim verður skipt í skuldabréf í erlendri mynt til mjög langs tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK