Hvetja ráðherra til að hraða skattabreytingum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Stjórn Félags atvinnurekenda skorar á fjármálaráðherra og Alþingi að hraða eins og kostur er samþykkt frumvarps sem kveður á um breytingar á vörugjaldi og virðisaukaskatti. 

FA hefur áður lýst eindregnum stuðningi við þau áform að afnema vörugjald og einfalda kerfi neysluskatta. Flókið og ógagnsætt skattkerfi leiðir til sóunar, bjagar verðvitund neytenda og skapar ekki eðlilega samkeppnishvata. Félag atvinnurekenda hefur barist fyrir umbótum á þessu sviði í áratugi, nú síðast undir merkjum Falda aflsins.

FA hefur hins vegar áhyggjur af því að málið virðist enn langt frá því að vera frágengið. Ekki virðist full samstaða um það milli stjórnarflokkanna og enn er verið að skoða aðrar útfærslur en þær sem lagðar eru til í upphaflegu frumvarpi fjármálaráðherra.

Félag atvinnurekenda leggur áherslu á að Alþingi samþykki sem fyrst þær breytingar á kerfi skatta og vörugjalda sem eiga að taka gildi 1. janúar 2015.

Á umliðnum árum hefur verið alltof algengt að slíkar breytingar verði ekki að lögum fyrr en á lokaspretti þingstarfa í desember og þannig gefist alltof skammur fyrirvari, jafnt fyrir opinberar stofnanir og atvinnulífið í landinu, að undirbúa þær, aðlaga upplýsingakerfi, upplýsa starfsfólk og viðskiptavini og þar fram eftir götunum. Stjórn FA minnir á að desember er annasamasti tími ársins hjá mörgum fyrirtækjum í verslun og þjónustu.

Stjórn FA varar ennfremur við hugmyndum sem fram hafa komið að undanförnu um að flækja frekar kerfi neysluskatta en gert er ráð fyrir í núverandi frumvarpi, til dæmis með því að setja gosdrykki og sælgæti í efra þrep virðisaukaskattsins. Slík breyting yrði afar flókin í framkvæmd og myndi enn frekar torvelda innleiðingu breytinganna á skömmum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK