Einn greiddi atkvæði gegn vaxtalækkun

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra um að lækka vexti um 0,25 prósentur en einn þeirra hefði þó heldur kosið að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni. Einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögu bankastjóra og kaus að halda vöxtum óbreyttum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá því fyrir tveimur vikum en var birt á vef Seðlabankans síðdegis í gær.

Eftirfarandi nefndarmenn sátu fundinn: Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Gylfi Zoëga, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður, Katrín Ólafsdóttir, lektor, utanaðkomandi nefndarmaður.

Sá nefndarmaður sem greiddi atkvæði með tillögu Más Guðmundssonar,  seðlabankastjóra en hefði þó heldur kosið að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni, var sammála því að dregið hafi úr skriðþunga efnahagsbatans en hafði hins vegar nokkrar áhyggjur af þeim óróleika sem nú einkenndi vinnumarkaðinn og áhrifum skuldalækkunar á eftirspurn þegar niðurstöður lægju fyrir.

Hefði hann því frekar kosið að bíða með lækkun vaxta fram í desember, þegar betra færi gæfist til þess að taka mið af nýjum upplýsingum þjóðhagsreikninga, frekari staðfesting á hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntinga hefði fengist, niðurstaða skuldaleiðréttingaraðgerða stjórnvalda lægi fyrir og eftir að markaðurinn hefði verið búinn undir að lækkun vaxta kunni að vera í spilunum með yfirlýsingu nefndarinnar nú.

Hann var þó þeirrar skoðunar að munurinn væri það lítill að hann gæti fallist á tillögu seðlabankastjóra.

Raunvextir væru of háir

Einn nefndarmanna sem studdi tillögu seðlabankastjóra taldi að hjöðnun verðbólgu mætti þakka hófsömum kjarasamningum á liðnu ári, innstreymi gjaldeyris og inngripastefnu Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Jákvæðir raunvextir hefðu síðan aukið innlendan sparnað og komið í veg fyrir að bólur mynduðust á fasteigna- og hlutabréfamarkaði.

Hins vegar væru raunvextir um þessar mundir of háir, sérstaklega ef miðað væri við útlánavexti viðskiptabankanna en ekki vexti Seðlabankans.

Vaxtaákvörðun ætti að hafa áhrif á þróun en ekki endurspegla nýliðna þróun

Einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögu bankastjóra og kaus að halda vöxtum óbreyttum. Taldi hann að þrátt fyrir mikinn árangur að undanförnu snerist vaxtaákvörðun hverju sinni um að hafa áhrif á þróunina fram á við en ætti ekki að endurspegla nýliðna þróun. Þótt gert væri ráð fyrir því að verðbólga hjaðnaði enn frekar á næstunni væri, litið lengra fram á veginn, búist við að hún þokaðist aftur upp vegna verðbólguþrýstings frá vinnumarkaði og minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum.

Þótt langtímaverðbólguvæntingar hefðu nú færst nær verðbólgumarkmiði bankans væri rétt að stíga varlega til jarðar í ljósi sögunnar og horfa á vinnumarkaði. Óvissan um verðbólguhorfur væri einnig heldur meiri upp á við.

Nefndin var sammála um að framvinda nafnvaxta ráðist eins og alltaf af þróun eftirspurnar og verðbólgu. Það var mat nefndarinnar að verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu, að öðru óbreyttu, skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Hins vegar taldi nefndin að miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þyrfti vexti á ný.

Fundargerðin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK