Skatturinn líkist eignaupptöku

Eignir slitabúa föllnu bankanna eru samtals um 2.500 milljarðar króna. …
Eignir slitabúa föllnu bankanna eru samtals um 2.500 milljarðar króna. Þar af eru erlendar eignir um 1.600 milljarðar.

Kröfuhafar föllnu bankanna munu mótmæla 35 prósent útgönguskatti ef af honum verður. Formaður slitastjórnar Glitnis segir engan lagagrundvöll vera fyrir slíkum skatti og væri hann ekkert annað en eignaupptaka. 

Þetta segir Steinunn Guðbjartsdóttir í samtali við Bloomberg þar sem einnig er rætt við fulltrúa slitastjórna Kaupþings og Landsbankans. Líkt og fram hefur komið eru samkvæmt heimildum Morgunblaðsins uppi áform um að leggja 35% útgönguskatt á greiðslur til kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna, vilji þrotabúin fá und­anþágu frá fjár­magns­höft­um.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, fulltrúi slitastjórnar Kaupþings, sagði þrotabúið ekki sætta sig við 35% skattlagningu. „Það er þunn lína á milli réttmætrar skattlagningar og eignarnáms,“ sagði hann. „Þrjátíu og fimm prósent skattur væri mun nær eignarnámi en lögmætri skattlagningu,“ sagði Jóhannes. 

Fara með skattinn fyrir dómstóla

„Ef þetta er ein af þeim hugmyndum sem eru á borðinu virðist samningsvilji ekki vera fyrir hendi,“ sagði Steinunn Guðbjartsdóttir. Þá sagði hún farið yrði með málið fyrir dómstóla og það þýddi að sátt væri ekki í sjónmáli í náinni framtíð. „Glitnir mun leita allra leiða til að vernda hagsmuni kröfuhafanna,“ sagði hún.

Kröfuhafar bankanna eru meðal annars vogunarsjóðirnir Davidson Kempner Capital Management LLC ogTaconic Capital Advisors LP en slitastjórnir bankanna hafa hingað til hvatt stjórnvöld til að veita undanþágur frá gjaldeyrishöfum til þess að unnt sé að ganga frá greiðslum. Timothy Coleman, starfsmaður Blackstone Group LP, ráðgjafarfyrirtækis kröfuhafanna, segir kröfuhafa Kaupþings vera tilbúna til að setjast niður með stjórnvöldum og ræða lausn á málinu. „Þeir telja að hægt væri að ljúka samningsviðræðum á tiltölulega skömmum tíma þannig að báðir aðilar geti vel við unað,“ sagði hann.

Frétt mbl: Greiði gjald fyrir forgang

Frétt mbl: Fullkomlega óraunhæf skattlagning

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK