Þrír milljarðar í leigutekjur

Fasteignafélagið Reginn á meðal annars Austurstræti 16 og hefur leigt …
Fasteignafélagið Reginn á meðal annars Austurstræti 16 og hefur leigt undir hótelrekstur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hagnaður fasteignafélagsins Regins eftir skatta nam tæpum 1,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs samkvæmt árshlutareikningi sem félagið hefur birt. Leigutekjur félagsins á tímabilinu námu rúmum þremur milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Regin er afkoma félagsins sögð góð og í ágætu samræmi við áætlun þess. Rekstrartekjur þess námu 3.458 milljónum króna og þar af námu leigutekjur 3.065 milljónum króna. Hækkun leigutekna frá sama tíma fyrra árs sé um 18%. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir var 2.183 milljónum króna og hefur aukist um 19% frá sama tíma fyrra árs.

Vaxtaberandi skuldir Regins voru 32,2 milljarðar króna við lok tímabilsins. Það er um 7,4 milljörðum krónum meira en við lok síðasta árs.

Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli. Í lok september 2014 átti Reginn 53 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var um 223 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins var 97% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers uppgjörtímabils í tengslum við gerð árshluta og ársreiknings og við matið er stuðst við núvirt framtíðar sjóðsflæði einstakra eigna. Matsbreyting á tímabilinu er 630 milljónir króna, að því er kemur fram í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK