Stjórnvöld draga línu í sandinn

Greiðslur af skuldabréfum Landsbankans eru enn undir höftum svo ekki …
Greiðslur af skuldabréfum Landsbankans eru enn undir höftum svo ekki yrði skapað mögulegt fordæmi vegna útgreiðsla til almennra kröfuhafa. mbl.is/Golli

Með því að neita beiðni slitastjórnar gamla Landsbankans (LBI) um að greiðslur af 230 milljarða gjaldeyrisskuld Landsbankans við LBI yrðu ávallt undanþegnar fjármagnshöftum hafa stjórnvöld tryggt að ekki sé skapað hugsanlegt fordæmi fyrir greiðslum út fyrir höft til almennra kröfuhafa slitabúanna.

Þrátt fyrir að aðeins hafi verið fallist á hluta af þeim víðtæku undanþágum sem farið var fram á – LBI fær að greiða um 400 milljarða til forgangskröfuhafa – þá samþykkti slitastjórnin að endurfjármögnunaráhætta af skuldabréfunum yrði einnig sett á herðar LBI eftir 2018. Landsbankinn á rétt á því við tilteknar aðstæður að fresta hluta þeirra afborgana, samtals upp á 70 milljarða, sem eru á gjalddaga 2018 og 2020. Lokagjalddagi skuldabréfanna verður árið 2026 í stað 2018 áður. Eftirstöðvar skuldabréfanna eru nú um 196 milljarðar eftir að Landsbankinn greiddi 30 milljarða inn á skuldina við LBI samhliða því að samkomulagið var samþykkt í vikunni. 

Sú krafa slitastjórnarinnar að skuldabréf Landsbankans yrði alfarið tekið út fyrir höft var á meðal skilyrða sem hún setti fram við undirritun samkomulags í maí síðastliðnum. Ljóst var hins vegar, líkt og áður hefur verið sagt frá á viðskiptasíðum Morgunblaðsins, að aldrei kom til greina af hálfu ráðgjafa stjórnvalda að fallist yrði á þá beiðni. Slík undanþága hefði torveldað mjög áform um losun hafta og gengið í berhögg við yfirlýsta stefnu um að nálgast það verkefni með heildstæðum hætti þar sem tekið væri tillit til gjaldeyrisútflæðis allra aðila í hagkerfinu – innlendra sem erlendra

Ekki samstaða meðal kröfuhafa

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það aftur á móti lengst af afstaða slitastjórnar LBI að ekki yrði samþykkt samkomulag um skilmálabreytingar á skuldabréfunum nema að því gefnu að greiðslurnar yrðu undanþegnar höftum. Ekki er langt síðan sú afstaða tók breytingum. Þannig sköpuðust fyrst raunhæfar forsendur um að hægt yrði að ljúka málinu, að mati stjórnvalda. Ákvörðun slitastjórnar að samþykkja frekari breytingar á fyrirliggjandi samkomulagi við Landsbankann þrátt fyrir að bréfin yrðu enn undir höftum naut hins vegar aðeins stuðnings breskra stjórnvalda í hópi helstu kröfuhafa búsins, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Stærsti forgangskröfuhafi LBI er breski innistæðutryggingarsjóðurinn vegna Icesave-sparnaðarreikninganna. Áður en veitt var undanþága fyrir greiðslum til forgangskröfuhafa í fyrradag átti sjóðurinn eftir að fá greidda um 400 milljarða úr búinu. Að undanförnu hafa bresk stjórnvöld þrýst mjög á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að undanþágur fyrir greiðslum til forgangskröfuhafa yrðu samþykktar sem fyrst. Seðlabanki Hollands, sem var áður næststærsti kröfuhafi búsins og átti eftir að fá greidda um 130 milljarða, seldi hins vegar sl. haust kröfur sínar til Deutsche Bank. Raunverulegir kaupendur voru sjóðir sem eru einnig almennir kröfuhafar í bú LBI, Kaupþings og Glitnis. Forgangskröfuhafar hafa nú fengið greidda 1.115 milljarða, eða 85% af höfuðstóli krafna sinna.

Engar tillögur kynntar slitastjórnum

Forsenda þess að greiðslurnar voru heimilaðar er að fullmótaðar tillögur um heildstæða stefnu stjórnvalda um afnám fjármagnshafta liggja nú fyrir. Skilaði framkvæmdastjórnin tillögum sínum til stýrinefndar um losun hafta í þessari viku. Til stendur að kynna meginatriði þeirra á fundi með samráðsnefnd fulltrúa allra þingflokka um afnám fjármagnshafta næstkomandi mánudag. Trúnaður mun þó ríkja um þær upplýsingar sem verða veittar á fundinum.

Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins stendur hins vegar ekki til, líkt og haldið hefur verið fram í sumum fjölmiðlum, að áætlun um losun fjármagnshafta verði gerð opinber í næstu viku og hún kynnt slitastjórnum föllnu bankanna. Síðustu vikur hafa slitastjórnir og fulltrúar kröfuhafa Glitnis og Kaupþings ítrekað farið þess á leit við ráðgjafa stjórnvalda að þeim verði veitt tækifæri til að kynna sjónarmið sín áður en áætlun um losun hafta lítur dagsins ljós.

Í bréfi sem sent var á slitastjórnir allra búanna í þessari viku var þeim því boðið að eiga fund með ráðgjöfum stjórnvalda þar sem þau fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í tengslum við uppgjör föllnu bankanna og undanþágur frá höftum. Fer fundurinn fram á Grand hótel nk. þriðjudag. Engin áform eru þó uppi um að slitastjórnunum verði kynntar þær tillögur sem nú liggja fyrir. Ólíklegt þykir að áætlun um losun hafta verði gerð opinber fyrr en eftir áramót.

Afnám óháð slitabúunum

Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er meðal annars lagt til að sett verði sérstakt útgöngugjald á allar útgreiðslur til erlendra aðila út fyrir fjármagnshöft. Rétt eins og greint var frá í Morgunblaðinu 18. október sl. þá hafa tillögurnar gert ráð fyrir því að skatturinn verði 35%. Slíkt gjald, sem er sett til að tryggja jafnræði við losun hafta, myndi gilda um allar greiðslur búanna úr landi til erlendra kröfuhafa. Enginn greinarmunur er gerður á því hvort greiðslurnar verði framkvæmdar í erlendum gjaldeyri eða krónum enda séu allar greiðslur til erlendra aðila háðar takmörkunum vegna fjármagnshafta. Ljóst er að slitabúin gætu að óbreyttu þurft að greiða mörg hundruð milljarða króna - líklega vel yfir 500 milljarða - í sérstakan skatt til ríkisins.

Tillögurnar miða að því að hægt verði að hefja losun hafta, óháð því hvort slitabúin koma fram með hugmyndir sem samrýmast þeim sjónarmiðum að leysa þurfi málið með heildstæðum hætti. Stjórnvöld munu ekki eiga neinar eiginlegar viðræður við slitabúin og fulltrúa kröfuhafa eftir að áætlun um losun hafta verður hrint í framkvæmd á næsta ári. 

Fyrstu skrefin lúta að aðgerðum til að taka á aflandskrónuvandanum – um 300 milljarðar – og tilslökunum fyrir beinar erlendar fjárfestingar innlendra aðila úr landi og lengri tíma fjárfestingar í erlendum verðbréfum. Vinnuheiti þessarar áætlunar stjórnvalda er Project Slack. Útgöngugjaldið mun þannig einnig ná til aflandskróna í eigu erlendra aðila eftir að þeir verða „þvingaðir“ til að skipta á krónueignum sínum á afslætti yfir í skuldabréf í erlendri mynt til meira en 30 ára.

Ólíkar fréttatilkynningar

Það vakti athygli að ekki var send út sameiginleg tilkynning frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu þegar greint var frá undanþágu frá höftum og samkomulagi Landsbankans og LBI. Innihald tilkynninganna er um margt mjög ólíkt.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir strax í upphafi að íslensk stjórnvöld „muni ekki samþykkja beiðnir slitastjórnar Landsbankans (LBI hf.) um undanþágur frá fjármagnshöftum sem hún óskaði eftir. [...] Ekki [er] fallist á að skuldabréf útgefið af Landsbankanum verði undanþegið fjármagnshöftum.“ Bent er á að samþykktar beiðnir einskorðist við greiðslur til forgangskröfuhafa. Ekki verði veittar undanþágur til almennra kröfuhafa nema í samhengi við framkvæmd heildstæðrar stefnu stjórnvalda.

Fram kemur í tilkynningu Seðlabankans að LBI hafi fengið undanþágu vegna greiðslna til forgangskröfuhafa fyrir um 400 milljarða. „Þá hefur Seðlabanki Íslands veitt LBI hf. vilyrði um undanþágur vegna frekari hlutagreiðslna til forgangskröfuhafa af framtíðarinnheimtum LBI, að því gefnu að slíkar undanþágur verði þá ekki taldar raska stöðugleika í gengis- og peningamálum.“

Ekki er sérstaklega vikið að því að beiðni LBI um að skuldabréf Landsbankans yrði undanþegið höftum sé hafnað. Hins vegar segir að undanþágurnar séu takmarkaðri en óskað var eftir. „Þá var beðið um mjög víðtækar undanþágur sem tóku til allra eigna búsins.“

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það ákvörðun stýrinefndar um losun hafta að sendar yrðu út tvær tilkynningar.

Upp­fært 7. desember klukkan 18:17

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að til stæði að kynna meginatriði tillagna framkvæmdastjórnar stjórnvalda um losun hafta á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd á morgun. Hið rétta er að slíkur fundur verður haldinn með samráðsnefnd fulltrúa allra þingflokka um afnám fjármagnshafta. Trúnaður ríkir um allar þær upplýsingar sem eru veittar nefndinni. 

Í samráðsnefndinni sitja Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Bjarkey Gunnarsdóttir, Vinstrihreyfingunni - grænt framboð, Frosti Sigurjónsson, Framsóknarflokki, Guðmundur Steingrímsson, Bjartri Framtíð, Jóhann Haukur Gunnarsson, Pírötum, og Vilhjálmur Bjarnason, Sjálfstæðisflokki. Formaður nefndarinnar er Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Árni Páll, Frosti, Guðmundur og Vilhjálmur eiga einnig allir sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK