Síðan hrundi vegna aðsóknar í vasann

Omaggio vasinn frá Kähler þykir forláta gripur.
Omaggio vasinn frá Kähler þykir forláta gripur.

Þegar 200 stykki af bronslituðum Omaggio vasa fóru í sölu í vefverslun Módern á laugardaginn hrundi vefsíða fyrirtækisins vegna álags og fengu nokkrir viðskiptavinir skilaboð um að kaupin hefðu gengið í gegn þegar svo var í raun ekki. Skjót viðbrögð leiddu þó til þess að verslunarleiðangurinn fékk góðan endi.

Úlfar Finsen, eigandi Módern, segir viðtökurnar hafa farið langt fram úr sínum björtustu vonum. „Því miður þoldi vefsíðan ekki aðsóknina og tengingin milli birgðakerfisins og verslunarhlutans rofnaði þannig að einhverjir viðskiptavinir fengu skilaboð um að kaupin hefðu gengið í gegn þegar vasinn var uppseldur,“ segir hann.

200 eintök seldust á 5 mínútum

Vasinn vinsæli er 175 ára afmælisútgáfa Omaggio vasans frá danska keramikfyrirtækinu Kähler. Hann er handmálaður líkt og aðrir vasar fyrirtækisins en kemur aðeins í mjög takmörkuðu upplagi. Vinsældirnar má líklega rekja til þess að hann hefur verið í forgrunni á flestum heimilum í nánast öllum hús­búnaðarblöðum eða inn­rétt­inga­bloggum á árinu. Þá hafa fréttir um takmarkað upplag ýtt undir áhugann. Að sögn Úlfars fékk Módern, sem er stærsti söluaðili Kähler á Íslandi, einungis hundruð vasa.

Hann segir það hafa legið fyrir að vasinn yrði gífurlega vinsæll og því hafi verið ákveðið að selja hann í vefversluninni til þess að gæta jafnræðis. Fyrri forsalan, sem fór fram þann 20. nóvember, gekk áfallalaust fyrir sig og seldust 200 vasar á um fimm mínútum. Í þeirri seinni, sem fór fram á laugardaginn, voru 200 eintök einnig í boði, en áhuginn var þó mun meiri og hafði það fyrrgreindar afleiðingar.

Aldrei upplifað slíka eftirspurn

„Eftir þessi vandræði höfðum við strax samband við framleiðandann og sögðum honum frá raunum viðskiptavina okkar,“ segir Úlfar. „Hann var ekki bjartsýnn í fyrstu þar sem vasinn er uppseldur en síðan fengum við góðar fréttir í gær og ljóst er að við munum geta afreitt alla sem fengu staðfestingu um kaupin,“ segir hann.

Hann segist aldrei hafa upplifað aðra eins eftirspurn á jafn skömmum tíma og býst ekki við að sjá hana aftur á næstunni. „Þetta er búið að vera áhugavert og krefjandi en við höfum líka haft gaman að þessu. Þótt það hafi komið upp vandamál eru einnig nokkur hundruð manns sem keyptu vasann og eru mjög ánægð,“ segir Úlfar.

Omaggio vasinn frá Kähler með bláum röndum.
Omaggio vasinn frá Kähler með bláum röndum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK