Einstakt á gjaldmiðlamarkaði

AFP

Fall norsku krónunnar í gær kom flestum mikið á óvart. Erna Solberg, forsætisráðherra landsins, segir Norðmenn nú á leið inn í meiri óvissu en áður. 

Ástæða falls krónunnar er talin vera lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu á undanförnum mánuðum. Frá því að olíuverðið náði hámarki í júní, hefur lækkunin verið stöðug og ákvörðun OPEC-ríkjanna að minnka ekki framleiðslu sína hefur bætt gráu ofan á svart fyrir Vesturlönd í olíuframleiðslu. Er nú olíuverðið komið undir 60 dollara á tunnuna, og ófyrirséð er hvort verðið muni áfram lækka. 

„Snögg lækkun olíuverðs leiðir til þess að við þurfum að einbeita okkur að innri þróun hagkerfisins,“ sagði Solberg í ræðu sinni í dag. Ríkisstjórn Noregs hefur gefið það út að hún leggi áherslu á bættum markaðsaðstæðum fyrir annan iðnað en olíuiðnaðinn, til þess að sveiflur í olíuverði hafi minni áhrif á efnahag og atvinnustig í landinu. Hagstofa Noregs (SSB) hefur spáð minni fjárfestingu í olíuiðnaði í landinu á komandi árum. Ekki hefur það þó áhrif á öll fyrirtæki í olíuiðnaði, en ýmis fyrirtæki í landinu þjónusta einnig erlend fyrirtæki og hafa þau minni áhyggjur af lækkandi olíuverði enda geta þau sinnt verkefnum í öðrum löndum.  

„Við erum komin á þann stað að við verðum að taka afleiðingunum af minnkandi fjárfestingu í olíu og jarðgasi,“ bætti Solberg við. 

Hagfræðingar norska bankans Nordea segja lækkun krónuverðsins í gær vera einstakan atburð. Sumir halda því fram að lækkunin hafi verið uppsöfnuð lækkun vegna lækkandi olíuverðs. Krónuverðið hefur haldist stöðugt frá því að olíuverð tók að lækka í júní, en í gær kom skellurinn. Fall krónunnar leiddi einnig til þess að Seðlabanki Noregs lækkaði stýrivexti í fyrsta skiptið frá árinu 2012. 

Norska ríkið vel í stakk búið

Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs segir ríkið vel í stakk búið til þess að takast á við erfiðleika á olíumarkaði. „Við erum með lítið atvinnuleysi, mikinn hagvöxt og fyrirtæki skila hagnaði. Við erum vel í stakk búin til þess að takast á við breytingar í innlendum iðnaði þegar þar að kemur,“ sagði hún í óundirbúnum fyrirspurnartíma á norska þinginu í dag þegar hún var spurð út í viðbrögð ríkisstjórnarinnar við lækkun krónunnar. 

Sjá frétt mbl.is: Morgan Stanley: Olíuverð mun lækka

Sjá frétt mbl.is: Olíuverð lækkar og lækkar

Erna Solberg , forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg , forsætisráðherra Noregs. AFP
Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs.
Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs. SCANPIX NORWAY
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK