Hvort borgar sig að kaupa eða leigja?

Leiguverð hefur hækkað mikið á liðnum árum og greiðslugeta tekjulægstu …
Leiguverð hefur hækkað mikið á liðnum árum og greiðslugeta tekjulægstu einstaklinganna nær ekki upp í meðalleiguverð. Ómar Óskarsson

Leiguverð hefur hækkað töluvert á undanförnum árum og áhugavert er að skoða hvort það borgi sig fremur að kaupa eða leigja. Með því að bera saman launatekjur og íbúðaverð má sjá hvernig húsnæði meðalfjölskyldan hefur efni á og hvort hagstæðara sé að flytjast í eigin húsnæði.

Farið er yfir þessa útreikninga í Markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka þar sem miðað er við hjón á vinnumarkaði með meðaltekjur og tvö börn.

Lægsta verðið í Breiðholti

Hægt að fá 2ja herbergja 75 m2 íbúð leigða fyrir um 145 til 185 þúsund krónur á mánuði að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu, en 3ja herbergja 100 m2 íbúð fyrir um 165 til 215 þúsund á mánuði. Lægst er meðalleiguverð 2ja herbergja 75 m2 íbúðar Í Breiðholti, en ódýrustu 3ja herbergja 100 m2 leiguíbúðirnar er að finna í Kópavogi að meðaltali.

Um þessar mundir hægt að festa kaup á 75 m2 2ja herbergja íbúð í Reykjavík fyrir um 25,5 milljónir, en líklega þyrfti að greiða nær 29,5 milljónir fyrir 100 m2 3ja herbergja íbúð. Hæsta kaupverð landsins er þó á þessu svæði og horfir dæmið öðruvísi við ef önnur sveitarfélög eru skoðuð, t.d. Kópavogur þar sem meðalverð hvorrar íbúðar um sig er um 3 milljónum króna lægra en í Reykjavík og jafnvel enn lægra í Hafnarfirði. Verðið er svo töluvert lægra utan höfuðborgarsvæðisins.

Hvati til að kaupa íbúð

Í dæmi greiningardeildarinnar er gert ráð fyrir afborgunum og rekstrarkostnaði sem miðast við markaðsverð íbúðar. Hvað tekjur varðar er miðað við launadreifingu Hagstofunnar en ekki er gert ráð fyrir öðrum tekjum eða útgjöldum. Reiknað er með að annað hjóna sé með námslán og að ekki þurfi að greiða af bílalánum. Þá er reiknað með að annað barnið sé á leikskóla.

Greiðslugetan er mismunandi eftir tekjum heimilanna og er þeim skipt í þrjá flokka. Um 25% fullvinnandi einstaklinga eru í neðri fjórðungsmörkum launatekna, með um 391 þúsund krónur á mánuði. Miðgildið nemur 489 þúsund krónum á mánuði og efri fjórðungsmörkin nema 636 þúsund krónum á mánuði en um 75% allra fullvinnandi einstaklinga eru með tekjur undir þeim mörkum.

Greiðslugeta tekjulægstu nær ekki meðalleiguverði

Ef keypt er íbúð sem kostar á bilinu 15 til 40 milljónir  ræður fjölskyldan í neðsta þrepinu við 60 til 120 þúsund króna greiðslubyrði á mánuði, fjölskyldan í miðþrepinu ræður við 150 til 210 þúsund krónur á mánuði en þeir sem eru í tekjuhæsta hópnum geta greitt um 260 til 320 þúsund krónur á mánuði.

Miðað við þetta reikningsdæmi virðist nokkur hvati, a.m.k. þegar horft er til nánustu framtíðar, til þess að festa kaup á fasteign ef unnt er að leggja til 20% eigið fé eða meira, og taka verðtryggt lán fyrir því sem upp á vantar.

Tekið er fram að ætla megi að laun fólks þróist almennt í takt við verðbólgu til lengri tíma litið og því sé e.t.v. ekki sérstök ástæða til að fara í of miklar æfingar til að reyna að meta hana, þar sem greiðslugeta og greiðslubyrði af verðtryggðu láni ættu að fylgjast nokkurn veginn að yfir lengri tíma

Greiningardeild Arion miðar við hjón á vinnumarkaði með tvö börn …
Greiningardeild Arion miðar við hjón á vinnumarkaði með tvö börn í útreikningum sínum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK