Kortaþjónustan mun berjast ótrauð áfram

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Kortaþjónustan mun berjast ótrauð áfram gegn samkeppnislagabrotum á kortamarkaðnum,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar. Hann fagnar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins en segist ekkert sérstaklega bjartsýnn á að niðurstaðan og sektir breyti miklu um samkeppnina.

Í tilkynningu frá Kortaþjónustunni segir að haustið 2002 hafi lítið fyrirtæki, Kortaþjónustan, hafið starfsemi á íslenska kortamarkaðnum og þannig rofið áratuga fákeppni. „Nú, rúmum tólf árum síðar, hafa alls sex íslensk fyrirtæki – kortafyrirtæki og eigendur þeirra, bankarnir - verið fundin sek um um það bil 40 mismunandi samkeppnisbrot gegn Kortaþjónustunni í þremur aðskildum niðurstöðum. Alls nema sektir í þessum þremur málum 2.855 milljónum króna.“

Jóhannes segir að umrædd brot hafi staðið yfir frá árinu 2002-2009 og í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, sem taki á um tuttugu þeirra brota,  sé ljóst að brotin hafi haldið áfram eftir þann tíma. „Þar sést jafnframt skýrt hvernig meira og minna allt íslenska bankakerfið lagðist á eitt við að koma Kortaþjónustunni af markaðnum.“

Síkvartandi Kortaþjónusta

„Þegar Kortaþjónustan benti Samkeppniseftirlitinu á samkeppnisbrot Valitors, sem síðar leiddu til 500 milljón króna sektar, sagði Höskuldur Ólafsson, þáverandi forstjóri Valitors og núverandi bankastjóri Arion Banka, að Kortaþjónustan væri „síkvartandi.“ Þar vísaði hann til þess að Kortaþjónustan hefði nýlega bent Samkeppniseftirlitinu á samkeppnisbrot fjölda banka og annarra fjármálastofnana á Íslandi. Nú hefur það leitt til 1.620 milljón króna sektar. Hvort ætli vandamálið liggi í því að Kortaþjónustan sé síkvartandi eða að fyrirtækin sem Höskuldur stjórnar séu síbrjótandi samkeppnislög?

Viðbrögð hinna brotlegu eru fyrirsjáanleg, enda svipar þeim til þess yfirlætis og útúrsnúninga sem Valitor, Borgun og önnur fyrirtæki á íslenska greiðslukortamarkaðnum hafa hingað til sýnt Samkeppniseftirlitinu, Kortaþjónustunni og neytendum. Kvartað er yfir sektargreiðslum og vísað til milligjaldamála í Evrópu. Þau eru hins vegar engan veginn sambærileg, þar sem hér á landi var fyrirkomulag milligjalda sérstaklega misnotað til að veikja stöðu eins fyrirtækis á markaðnum – Kortaþjónustunnar. Það er vissulega refsiverð háttsemi,“ segir í tilkynningu Kortaþjónustunnar.

Frétt mbl.is: Greiða 1.620 milljónir í sekt

Frétt mbl.is: Arion vildi komast hjá sektargreiðslu

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK