Munu reisa Kínamúra innan Valitor

Valitor var meðal þeirra fyrirtækja sem gert var að greiða …
Valitor var meðal þeirra fyrirtækja sem gert var að greiða sektir vegna brota á samkeppnislögum. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir að ráðist verði í ýmsar breytingar innanhúss í kjölfarið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kortafyrirtækin Borgun og Valitor munu þurfa að reisa Kínamúra innan fyrirtækjanna nema að færsluhirðingarstarfsemi og kortaútgáfa verði aðskilin í sitt hvort fyrirtækið. Þetta má lesa úr sátt fyrirtækjanna við Samkeppniseftirlitið sem kynnt var í morgun. Með þessu á að koma í veg fyrir að fyrirtækin nýti sér stöðu sína á sviði kortaútgáfu til að skapa sér óeðlilegt samkeppnisforskot gegn keppinautum á sviði færsluhirðingar.

Felur í sér ýmsar breytingar í rekstri

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, segir í samtali við mbl.is að þetta kalli á ýmiskonar aðgreiningu í rekstri Valitor. Sáttin muni leiða til þess að fyrirtækið innleiði ýmsar breytingar í rekstri, sérstaklega þegar kemur að raunlegum aðgangsstýringum og aðgangi að tölvukerfum. Segir hann að í sáttinni fallist Samkeppniseftirlitið á að nauðsynlegt sé að fyrirtækin tvö geti nýtt sér stærðarhagkvæmni til að þróa og byggja upp starfsemi sína, en að passað verði jafnframt upp á þessa skiptingu.

Kínamúrar innan fyrirtækisins

„Það þarf mikið magn til að vera hagkvæmur í kortaviðskiptum og samkomulagið hefur ekki áhrif á það,“ segir Viðar. Hann segir að Kínamúrar verði reistir um ákveðna þætti fyrirtækisins og að meðal annars hafi þetta verið haft að leiðarljósi við uppbyggingu nýs kortakerfis fyrirtækisins fyrir banka og fjármálafyrirtæki.

Viðar segir að með sáttinni sé stigið skref í átt að nýju landslagi í kortaviðskiptum hér á landi þar sem aukin samkeppni sé í forgrunni. Þannig bendir hann á að nokkrir minni aðilar séu að koma á greiðslumiðlunarmarkaðinn og að það sýni að samkeppni ríki þar.

Gangast við brotunum

Þetta er mikilvægur áfangi í því að gera breytingar á kortamálum á Íslandi og klára mál gagnvart Samkeppniseftirlitinu. Við viljum styðja við samkeppni og erum að sjá nýja aðila koma inn á markaðinn og það sýnir að það er samkeppni og það er gott fyrir alla, m.a. neytendur,“ segir Viðar.

Aðspurður hvort Valitor og hin fyrirtækin séu ekki með sáttinni að viðurkenna brot á samkeppnislögum segir hann að það komi fram í niðurstöðum eftirlitsins og fyrirtækið gangist við því. Með breytingunum sem fylgi sáttinni telur hann aftur á móti að girt verði fyrir slíkt athæfi í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK