Tækifæri til gjalda á olíu

Hætt er við því að lægra olíuverð þýði að akstur …
Hætt er við því að lægra olíuverð þýði að akstur aukist með tilheyrandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda á sama tíma og ríki heims reyna að draga úr honum vegna loftslagsbreytinga. AFP

Lækkandi olíuverð er tækifæri fyrir stjórnvöld í heiminum til að efla framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Þau þurfa að nýta tækifærið á meðan verð á olíu er lágt til þess að leggja ný gjöld á jarðefnaeldsneyti til þess að draga úr notkun þess, að mati framkvæmdastjóra Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.

Margir hafa tekið lægra olíuverði fagnandi og er það meðal annars sagt hafa jákvæð áhrif á efnahag ríkja sem eru háð innflutningi á olíu. Lægra olíuverð kemur einnig vel við pyngju almennings og tilhneigingin gæti orðið sú að fólk keyri og fljúgi meira nú en þegar verðið var hærra. Það er hins vegar ekki æskilegt á sama tíma og þjóðir heims reyna að koma sér saman um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo forða megi verstu afleiðingum loftslagsbreytinga.

Maria van der Hoeven, framkvæmdastjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar, segir lækkandi olíuverð vissulega hafa verið lyftistöng fyrir mörg lönd en það skapi hins vegar einnig tækifæri til þess að styðja við endurnýjanlega orkugjafa. Jafnvel þó að fólk keyri meira þegar eldsneytisverð lækkar þá verði einnig auðveldara að bæta nýjum gjöldum á notkun þess.

„Þetta er tækifæri fyrir fjölda landa sem leggja nú mikla fjármuni í niðurgreiðslur til jarðefnaeldsneytisframleiðslu til að draga smám saman úr þeim,“ sagði van der Hoeven þegar hún kynnti skýrslu stofnunarinnar um orkustefnu Bandaríkjanna og tímaritið Forbes segir frá á vefsíðu sinni.

Þá spurði hún hvers vegna ríki heims nýttu ekki tækifærið til að leggja kolefnisgjald á eldsneyti nú þegar verð á olíu er lágt. Einnig nefndi hún að meira væri hægt að gera til þess að auka sparneytni á orku. Það væri mun veigameira atriði en lágt olíuverð í augnablikinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK