Leysir vanda fyrir leiðsögumenn

Kerfið tengir saman ferðaþjónustufyrirtæki og leiðsögumenn.
Kerfið tengir saman ferðaþjónustufyrirtæki og leiðsögumenn. Eggert Jóhannesson

„Þetta kemur til með að spara fullt af tíma og peningum,“ segir Haukur V. Jónsson, framkvæmdastjóri Guides ehf. um nýtt kerfi sem fyrirtækið var að þróa fyrir ferðaþjónustubransann og er til þess fallið að auðvelda samskipti milli leiðsögumanna og ferðaþjónustufyrirtækja. 

Haukur segir kerfið vera sett upp til að leysa vandamál innan leiðsögumannaiðnaðarins þar sem ferðaþjónustufyrirtæki þurfa oft að eyða dýrmætum tíma í að finna lausa leiðsögumenn þegar verið er að skipuleggja ferðir.

Fá beiðni í gegnum appið

Nýi vefurinn og meðfylgjandi app munu halda utan um lausa daga leiðsögumanna og samskipti þeirra við ferðaskipuleggjandann. Í kerfinu býr leiðsögumaður sér til sína eigin síðu þar sem hann setur inn grunnupplýsingar um sjálfan sig ásamt upplýsingum um nám sitt í leiðsögn, tungumálakunnáttu og hvernig leiðsögumaður viðkomandi er, þ.e. hvort hann sé til dæmis sé fjalla- eða næturlífsleiðsögumaður. Ferðaþjónustufyrirtækin geta síðan flett leiðsögumönnum upp eftir flokkum og fundið lausan aðila út frá fyrirfram skilgreindum dögum, sent á þá beiðni um að taka að sér ferð með lýsingu. Leiðsögumaður fær þá beiðnina beint í símann hjá sér og getur þannig tekið að sér nýtt verkefni á skömmum tíma.

Hægt að nýta kerfið í fleiri greinum

Haukur er fæddur og uppalinn í ferðaþjónustubransanum þar sem faðir hans er með rútuferðafyrirtæki og ferðaskrifstofu og móðir hans hefur lengi verið í hótelrekstri. Hann segist því sjálfur hafa séð hversu miklum tíma oft sé eytt í einungis það að finna leiðsögumenn og púsla saman ferðum. „Ég hugsaði því með mér að það hlyti að vera hægt að finna sniðugari lausn. Við höfum nú verið að kynna þetta aðeins fyrir aðilum innan ferðaþjónustunnar og öllum finnst þetta alveg æðislegt,“ segir hann.

Kerfið verður opið fyrir alla leiðsögumenn en verkefnið er unnið í samvinnu við Félag leiðsögumanna og geta leiðsögumenn því merkt sig sérstaklega séu þeir meðlimir í félaginu.

Þá segir Haukur kerfið bjóða upp á ýmsa frekari möguleika og er hugsunin að sníða það einnig að þörfum flutningabifreiða þannig að bílstjórar þurfi síður að fara tómhentir til baka þegar búið er að skila farmi.

Haukur V. Jónsson og Ægir Finnsson hönnuðu og þróuðu kerfið.
Haukur V. Jónsson og Ægir Finnsson hönnuðu og þróuðu kerfið. Mynd/Haukur V. Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK