Vildu ekki vinna á aðfangadagskvöld

Talið er að um 50 til 60 þúsund ferðamenn verði …
Talið er að um 50 til 60 þúsund ferðamenn verði á Íslandi í desember. mbl.is/Golli

Opið er á sautján veitingastöðum í Reykjavík á aðfangadagskvöld og ekki er annað hægt að segja en að matseðlarnir séu fjölbreyttir. Geta prúðbúnir gestir á aðfangadag fengið sér allt frá kebab að hreindýrapaté í kvöldmat. Reykjavík er að stimpla sig inn sem jólaborg að sögn Samtaka ferðaþjónustunnar.

Nánast er uppbókað á Skrúð á Hótel Sögu þar sem hægt er að taka við hundrað manns í sæti. Eiga 96 manns þegar pantað borð og eru flestir matargestir erlendir ferðamenn þó tvö borð séu í nafni Íslendinga. Hörður Sigurjónsson, gæða- og sölustjóri á Hótel Sögu, segir matseðilinn fjölbreyttan þar sem gestirnir séu það einnig. Á borðstólnum verður meðal annars kalkúnabringa, hangikjöt, lambalæri og grænmetisréttur. 

Ali baba í jólamatinn

Á MAR veitingastað á Geirsgötu er einnig að verða fullbókað en tekið er við 116 manns í sæti. Húsið opnar klukkan 17:30 og er síðasta borðið bókað klukkan 22. Dyrnar á Hereford hafa ávallt staðið opnar á aðfangadagskvöld en svo verður ekki á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum frá veitingastaðnum var starfsfólkið afar ósátt með að þurfa vinna á aðfangadagskvöld og var því ákveðið að hafa lokað. Fjöldi fyrirspurna um borð hafa þó borist.

Þá er einnig hægt að komast í hversdagslegri stemningu og verður til að mynda opið á kebabstaðnum Ali Baba í Veltusundi þar sem boðið er upp rétti samkvæmt hefðbundnum matseðli, en þar má meðal annars finna kjúklinga shawarma-rúllu og hamborgara. Einnig var opið á síðasta ári og segir starfsmaður veitingastaðarins að þó nokkrir hafi lagt leið sína þangað.

Jólaborgin Reykjavík

Mikil aukning hefur verið á erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim yfir áramót og er að verða full bókað á mörgum hótelum í Reykjavík. Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, segir jólin hafa á síðustu árum verið að koma sterkari inn, þó þau hafi enn ekki náð vinsældum áramótanna. Hann segir aukningu ferðamanna á þessum árstíma fyrst og fremst hafa verið á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2011 komu tæplega 21 þúsund erlendir ferðamenn til landsins í desember, en í fyrra voru þeir hátt í 42 þúsund talsins. Bjartsýnustu spár gera ráð fyrir milli 50 og 60 þúsund erlendum ferðamönnum í desember á þessu ári. „Það eru ekki mörg ár síðan lokað var yfir hátíðirnar hjá mörgum hótelum í Reykjavík og einhver hótel skiptust á að hafa opið á milli ára,“ segir Skapti. „Núna er nánast opið á öllum hótelum og passað upp á opnunartíma veitingastaða, þannig að tryggt sé að erlendir gestir komi ekki að lokuðum dyrum,“ segir hann.

Þá segir hann óhætt að segja að Reykjavík sé komin á kortið sem jólaborg á evrópska vísu, enda hafi Höfuðborgarstofa unnið markvisst að því undanfarin ár en til dæmis má nefna að Reykjavíkurborg hefur komist á lista CNN-fréttastofunnar yfir áhugaverðustu vetrar- og jólaáfangastaði í heimi.

Starfsfólk Hereford neitaði því að vinna á aðfangadag.
Starfsfólk Hereford neitaði því að vinna á aðfangadag. Sverrir Vilhelmsson
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK