Vinnumarkaðurinn skreppur saman

Þróunin mun hamla hagvexti hér á landi innan nokkurra ára …
Þróunin mun hamla hagvexti hér á landi innan nokkurra ára verði ekkert að gert. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Viðvörunarljós loga á íslenskum vinnumarkaði þar sem útlit er fyrir að vinnumarkaðurinn fari að skreppa saman eftir um áratug og þar af leiðandi verður erfiðara að manna hagvöxt í landinu. Ástæðan er hækkandi meðalaldur þjóðarinnar og mikil örorkubyrði.

Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á hádegisfundi um horfur í efnahagsmálum á árinu 2015.

Hann segir hlutfall fólks á Íslandi sem horfið hefur af vinnumarkaði sökum örorku vera á meðal þess hæsta sem þekkist en níu prósent þjóðarinnar eru í dag örorkuþegar. Hlutfallið hefur farið hratt vaxandi á liðnum árum en á árinu 1986 voru um 3,5 prósent þjóðarinnar örorkuþegar.

Fjárframlög ríkisins og lífeyrissjóða í örorkubyrði hafa þá tvöfaldast á undanförnum árum og nema um 50 milljörðum á ári. Er það með allra hæstu útgjöldum sem þekkist eða um 2,7 prósent landsframleiðslunnar.

Starfsendurhæfing besta sparnaðartækið

Þrátt fyrir þetta verja stjórnvöld nær engu til starfsendurhæfingar á meðan öll önnur ríki verja meiru. 

Samtök atvinnulífsins standa að starfsendurhæfingarsjóðnum VIRK ásamt Samtökum launafólks og ríki og sveitarfélögum en hlutverk sjóðsins er að stuðla að endurhæfingu og atvinnuþátttöku fólks í kjölfar veikinda eða slysa. Framlag ríkisins til sjóðsins átti að nema um 1.100 milljörðum króna á næsta ári en hins vegar var honum einungis úthlutað 200 milljónum í fjárlögum. Nefna má að samkvæmt úttekt sem Talnakönnun gerði að beiðni sjóðsins varð um 10 milljarða ávinningur af starfsemi sjóðsins á síðasta ári. Hann skiptist milli ríkisins, Tryggingastofnunar og lífeyrissjóðanna að ótöldum ávinningi þeirra sem sneru aftur til vinnu eftir endurhæfingu.

Þorsteinn segir aukin framlög til starfsendurhæfingar vera öflugasta sparnaðartækið í þessum efnum. „Það er mikið vandamál að lenda á örorkubótum og starfsendurhæfing er bæði mikilvæg fyrir þjóðfélagið og örorkuþega,“ segir Þorsteinn.

Þyngri byrðar á vinnumarkaðinn

Auk þess sem örorkuþegum hefur fjölgað eldist þjóðin hratt og Íslendingar fæddir í dag geta vænst þess að ná ríflega 80 ára aldri. Áætlað er að í lok aldarinnar verði lífslíkurnar orðnar meira en níutíu ár. Þorsteinn segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða og nefnir til dæmis að hækka lífeyrisaldur í sjötíu ár og stytta framhaldsskólanám um tvö ár til þess að ná fólki fyrr út á vinnumarkaðinn. 

Frá og með árinu 2020 mun fækka á vinnumarkaði þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 500 til 800 aðfluttum umfram brottflutta á tímabilinu. „Byrðar velferðarkerfisins verða mun þyngri að bera og við þurfum að grípa til aðgerða. Þessi þróun mun að óbreyttu hamla hagvexti hér á landi,“ segir Þorsteinn Víglundsson. 

Þjóðin eldist hratt og þarft er að hækka eftirlaunaaldur að …
Þjóðin eldist hratt og þarft er að hækka eftirlaunaaldur að sögn Þorsteins. Morgunblaðið/Ómar
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK